137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst mikilvægt að við ræðum þetta atriði dálítið á þessu stigi áður en við veitum umboð til samningaviðræðna vegna þess að svipuð sjónarmið komu fram hjá hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag en hann var kannski skýrmæltari en hæstv. utanríkisráðherra. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að hann teldi að samningaviðræðum yrði hætt ef það væri ljóst að þau viðmið sem sett eru fram í þingsályktunartillögunni næðust ekki í samningaviðræðunum. Þá velti ég fyrir mér hvort það samræmist því yfirlýsta markmiði tillögunnar sem mikið hefur verið hamrað á, að það væri nauðsynlegt að þjóðin fengi tækifæri til að skera úr um málið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá spyr ég: Er sá vilji til að ljúka málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu svo skýr að menn muni klára samninga jafnvel þótt þeir séu andvígir þeim, (Forseti hringir.) að menn muni undirrita samninga, koma svo heim og segja: „Ekki samþykkja þá“?