137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég tel að þessi staða muni ekki koma upp er sú — ég var byrjaður á að skýra það í fyrra andsvari mínu — að reynslan sýnir að Evrópusambandinu tekst í samningum við umsóknarríki jafnan að búa til þær lausnir sem hafa dugað. (PHB: Ekki í Noregi.) Nema þá, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Þar er reyndar ákveðin reynsla sem við getum lært af, en ef hv. þingmaður er að velta því upp að sú staða komi upp að framkvæmdarvaldið og löggjafinn í sameiningu komist með einhverjum hætti að þeirri niðurstöðu að það eigi að hætta samningum en vilji eigi að síður leggja þá niðurstöðu í þjóðaratkvæði verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei hugsað þá hugsun eins og mér virðist hv. þingmaður gera. Þetta er hugmynd sem vert er að skoða ef sú staða kemur upp en ég á ekki von á því.