137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hæstv. utanríkisráðherra þess efnis að hv. formaður utanríkismálanefndar hafi þurft að beygja sig aftur á bak til að þóknast framsóknarmönnum veit ég svo sem ekkert um það, né heldur hvort hann hafi af völdum Samfylkingarinnar þurft að beygja sig í einhverja aðra átt.

Mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að fara svona vel yfir málið í upphafi, stefnu okkar framsóknarmanna og skilyrði, en segja líka að hann sagði nefnilega nánast sannleikann í þetta skiptið þegar hann sagði orðið „nánast“. Það stendur nánast það sama í greinargerð meiri hlutans og í samþykktum framsóknarmanna. Það er nefnilega munur þar á. Í þessari greinargerð er skilyrðunum algjörlega hafnað og vísað til þess að þau eigi að vera til hliðsjónar en ekki sem skilyrði og það er munurinn sem við, mörg hver, (Forseti hringir.) framsóknarmenn, lítum á að sé sá munur sem við getum ekki sætt okkur við.