137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur farið um víðan völl í dag og titlað sjálfan sig með ansi mörgum starfsheitum. Ég er nú komin með nýjasta nafnið og það er framsóknartúlkur. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti frekar að halda sig við stefnu síns flokks en að túlka annarra manna stefnu. Hins vegar til að svara því sem hæstv. utanríkisráðherra hefur talað um, að skilyrði séu ekki skilyrði hjá Framsóknarflokknum, bendi ég á að sumir töldu eftir okkar góða flokksþing að Framsókn vildi ekki fara í ESB og skilyrðin væru það ströng að það væri ESB sem þyrfti að sækja um aðild að Íslandi þannig að því sé haldið til haga hvernig túlkun á ýmsum ákvæðum er.

Nú er komið að spurningunni sem ég ætla að bera upp við hæstv. utanríkisráðherra: Telur hann að hann sjálfur og hæstv. forsætisráðherra njóti trausts á alþjóðavettvangi og í Evrópu þar sem þessir sömu aðilar áttu bæði aðild (Forseti hringir.) að ríkisstjórninni þegar hér fór allt í kaldakol?