137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þau skilyrði sem hv. þingmaður nefnir rifjaði ég það upp fyrir henni að hún sagði ekkert um skilyrði þegar hún var í sjónvarpsþætti með mér þremur dögum fyrir kosningar og lýsti því yfir að hún væri fylgjandi því að (Gripið fram í.) látið yrði reyna á aðild. (SDG: Þetta er einhver þráhyggja.) (VigH: Þráhyggja.) Ég tek mark á því sem Framsóknarflokkurinn segir, (SDG: Gott.) og oft segir hann það með þeim hætti að það verður mér minnisstætt. (VigH: Svaraðu spurningunni.)

Spurningin var sú hvort ég teldi að ég og hæstv. forsætisráðherra nytum trausts úti í Evrópu. Ja, ég kem ekki hingað og segi af eða á um slíkt, en ráðlegg hv. þingmanni að nota þau alþjóðlegu tengsl sem Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum það alþjóðasamband sem hann á aðild að til að kanna það. Ég get ekki sagt henni til um það hvort ég nýt trausts eða ekki. Ég naut einu sinni dágóðs trausts í Framsóknarflokknum en það er kannski liðið. (Gripið fram í.)