137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég rifja bara upp hið góða spakmæli: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Mér kemur ekki til hugar að halda því fram hér að Framsóknarflokkurinn sem var tólf ár í ríkisstjórn beri nokkra ábyrgð á því. Hann gerði örugglega ekki neitt sem kynni með einhverjum hætti að hafa leitt til þessarar stöðu sem við erum í. Það var örugglega ekki ráðherra Framsóknarflokksins sem lagði (Gripið fram í.) fram til dæmis frumvarp til laga um innstæðutrygginguna og svo framvegis og ég er alveg sannfærður um það að Framsóknarflokkurinn á ekki nokkra sök á þessu. (Gripið fram í.) Hann er örugglega eini flokkurinn sem er fullkomlega syndlaus. Það vita allir.

Hv. þingmaður kemur og spyr um traust á mér eftir að hafa sjálf sagt að vitaskuld sé ég ekki rétti maðurinn til þess að meta álit annarra á mínu trausti. Ég var búinn að segja það við hv. þingmann: Ég held að hún eigi bara að leita einhverra annarra leiða til þess. Ég hef að minnsta kosti eitt af því sem þarf í svona starf og það er sjálfstraust. (Gripið fram í.)