137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðum hér í dag lagði landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í mars síðastliðnum áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur jafnframt verið stefna hreyfingarinnar að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB. Ég tel nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar vera í samræmi við þessa ályktun landsfundar þar sem hún er fyrst og fremst tillaga um hvernig staðið verði að aðildarviðræðum og viðurkenning á rétti þjóðarinnar til að taka afstöðu til samnings um aðild Íslands að ESB.

Margir hafa gagnrýnt einstaka þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir að tala um að vera á móti ESB og samþykkja síðan að farið verði í aðildarviðræður. Þessi tvískipta afstaða okkar Vinstri grænna skýrist meðal annars af því að þjóðin jafnt sem stjórnmálaflokkar samanstanda af fólki sem hefur ólíka afstöðu til ESB-aðildar. Þess má meðal annars geta að margir stjórnmálaflokkar í Noregi og Svíþjóð sóttu um aðild þrátt fyrir það þar væru innan borðs mjög skiptar skoðanir um umsókn eða um aðildarviðræður við ESB.

Nýleg viðhorfskönnun sýndi til dæmis að hópur kjósenda VG sem vill aðildarviðræður er stærri en sá sem er andvígur. Þessi niðurstaða er í samræmi við samræður mínar við marga kjósendur Vinstri grænna fyrir nýliðnar kosningar í Reykjavík. Þessir kjósendur lýstu áhyggjum sínum af því að þingflokkurinn mundi koma í veg fyrir að þjóðin fengi tækifæri til að sjá og kjósa um aðildarsamning við ESB. Þess má jafnframt geta að margir kjósendur lögðu áherslu á að mikilvægt væri að Vinstri græn veittu Samfylkingunni aðhald í samningsferlinu.

Ég ítreka að ástæða þess að ég styð aðildarumsókn er að ég tel þjóðina ekki geta tekið upplýsta afstöðu til málsins nema fyrir liggi þeir skilmálar sem Ísland verður að undirgangast með aðild. Skilmálarnir komast ekki á hreint nema eftir aðildarviðræður við ESB. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um málið mun að mínu mati veikja samningsstöðu okkar gagnvart ESB. Ég styð því málsmeðferð sem felur í sér að fyrst verði farið í aðildarviðræður og síðan verði niðurstaðan lögð fyrir dóm þjóðarinnar um leið og hún liggur fyrir. Ég tel jafnframt að þjóðaratkvæðagreiðsla henti ekki eins vel til að skera úr um vilja þjóðarinnar hvað varðar málsmeðferð eins og varðandi niðurstöðu slíkrar málsmeðferðar.

Spurningin um hvort viðunandi niðurstaða fáist um grundvallarhagsmuni Íslands kemur ekki endilega í ljós fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir. Þó hefur ítrekað komið fram, meðal annars í máli Olli Rehn, stækkunarmálastjóra Evrópusambandsins, að engin fordæmi væru fyrir varanlegum undanþágum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Aðeins með aðildarviðræðunum er hægt að fá niðurstöðu í hverjir kostir aðildar eru, en um leið þarf skilyrðislaust að halda til haga sérstökum íslenskum hagsmunum, einkum þeim sem lúta að nýtingu og stjórn auðlinda.

Kostir aðildar sem nefndir hafa verið eru meðal annarra lægra vöruverð, lægri vaxtakostnaður, þátttaka í stefnumótun innan ESB og áhrif á lög og reglur ESB sem við höfum ekki í dag þrátt fyrir að hafa innleitt um 70% þeirra reglna og tilskipana. Í mínum huga skiptir miklu máli að aðild Íslands að ESB mun tryggja annars vegar þátttöku okkar í atvinnustefnu og félagsmálastefnu ESB og hins vegar innleiðingu regluverks er varðar réttindi minnihlutahópa á vinnumarkaði.

Ég tel ekki rétt að fresta aðildarumsókn á meðan verið að vinna að bráðaaðgerðum í efnahagsmálum þar sem mjög brýnt er orðið að finna lausn á gjaldeyriskreppunni. Við erum í dag að glíma við tvíburakreppu, þ.e. bæði bankakreppu og gjaldeyriskreppu. Gengi krónunnar hefur fallið um 118% gagnvart evru síðastliðin tvö ár og stöðugt þarf að herða viðurlög sem koma í veg fyrir útstreymi fjármagns til að varna frekari gengislækkun krónunnar. Gengishrapið skýrist meðal annars af því að krónan er ekki lengur gjaldgengur gjaldmiðill á alþjóðafjármálamörkuðum, með öðrum orðum, íslenska krónan er rúin trausti sem tekur marga áratugi að endurvinna.

Reynsla þjóða af álíka mikilli gengislækkun er því miður sú að mjög erfitt er að stoppa hana og enn erfiðara er að tryggja verulega gengishækkun. Seðlabanki Íslands gerir nú ráð fyrir að ekki verði hægt að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en eftir nokkur ár. Ástæðan fyrir því er sú að mikill þrýstingur er á gengi krónunnar og það stafar meðal annars af 300 milljörðum sem bíða eftir að komast út úr hagkerfinu og að skuldabyrði þjóðarinnar er risavaxin og það eitt mun þýða verulegt útstreymi fjármagns á næstu árum.

Ef við viljum ekki búa við gjaldeyrishöft næstu árin eru aðeins tvær lausnir í sjónmáli, annaðhvort að leita eftir stuðningi ESB við krónuna og taka síðan upp evru eða taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Í nefndarálitinu kemur fram að gera eigi viðræður um gjaldmiðilsmál að forgangsverkefni í viðræðuferlinu. Skýrt er kveðið á um að leita eigi eftir samkomulagi við ESB og Evrópska seðlabankann um stuðning við krónuna á næstu missirum. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils en krónunnar þýðir að nota þarf gjaldeyrisvarasjóðinn til að skipta út krónum fyrir annan gjaldmiðil. Við núverandi aðstæður mun skiptigengi krónunnar verða lágt sem þýðir í raun að fjármagnseigendur munu tapa þar sem eigur þeirra verða lítils virði eftir að búið er að skipta þeim yfir í annan gjaldmiðil. Skuldabyrði fyrirtækja og heimila mun hins vegar léttast. Auk þess verða ekki lengur til varasjóðir í landinu til að verja viðskiptabankana áhlaupi spákaupmanna, viðskiptabanka sem í dag eru rúnir öllu trausti.

Virðulegi forseti. Komi í ljós að ESB og Evrópski seðlabankinn muni ekki styðja gengi krónunnar og að ekki verði hægt af hálfu Íslendinga að fullnægja skilyrðum Maastricht-samkomulagsins er ljóst að innganga í Evrópusambandið er gagnslítil. Verði það niðurstaðan tel ég samningaviðræðunum sjálfhætt og að Íslendingar eigi að snúa sér af fullum þunga að því að endurreisa efnahagslífið og íslenskt samfélag óstuddir.