137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur eins og aðra þingmenn hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið, hvort hún vilji sjá Ísland í Evrópusambandinu eftir 10, 15, 20, 50 eða 100 ár, til að reyna að fá þetta yfir á lengri tíma af því að við erum að sækja um aðild að heilu ríkjabandalagi. Við erum ekki að skreppa í sumarleyfisferð.

Síðan varð ég fyrir miklum vonbrigðum með að hagfræðingurinn segir að aðalmálið sé evran. Hún meira að segja kom með töfrasprota Harrys Potters hérna eins og samfylkingarmaður, um lægra vöruverð, lægri vexti og áhrif innan Evrópusambandsins.

Í fyrsta lagi fáum við ekki evruna nema við uppfyllum Maastricht-skilyrðin. Ég held að það sé alveg borin von. Það eru mörg ríki sem bíða eftir því að fá evru og fá hana ekki. Það er fráleitt að Ísland fengi hana á undan þeim. Síðan byggir lægra vöruverð á því að menn ætla sér að breyta landbúnaðarstefnunni. Við getum breytt öllu sjálf, tollunum og öllu saman sjálf. Við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið til þess. Lægri vextir? Vextir eru ekkert annað en verð á peningum og háð framboði og eftirspurn. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður ætlar að leysa málið með verðtrygginguna til dæmis. Það eru einkasamningar. Það þarf að leysa það áður en við tökum upp evru.

Síðan segir hún að stuðningur hennar við Evrópusambandsaðild sé aðallega bundinn gjaldmiðilsmálum. Ég vil spyrja hv. þingmann. Stór hluti okkar vanda er einmitt Icesave sem kemur frá Evrópusambandinu, sem byggir á óbilgirni Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og skilningsleysi á okkar högum. Á hún von á því virkilega að Evrópusambandið fari að styðja við krónuna?