137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt stjórnarskránni sem við höfum svarið eið að ber þingmönnum að fara að sannfæringu sinni en ekki einhverri skoðanakönnun hjá þjóðinni. Ég var að spyrja að sannfæringunni, til hvers þingmaðurinn sé á Alþingi. Er hún ekki að leiða þjóð sína? Á hún ekki að hafa sannfæringu þannig að þjóðin fylgi henni eða fylgi henni ekki? Ég var dálítið hissa á því að þingmaðurinn gefi ekki upp sannfæringu sína sem hún virðist þá ekki hafa.

Svo er það spurningin um Icesave og afstöðuna til Evrópusambandsins. Mér finnst alveg fráleitt í núverandi stöðu að sækja um eftir að hafa fengið þá meðhöndlun hjá Evrópusambandinu sem við höfum fengið síðan hrunið var. Það er enginn skilningur, engin þekking og bara akkúrat — Hollendingar láta okkur Íslendinga meira að segja borga 7 milljón evrur fyrir umstangið hjá sér. Þvílík er niðurlægingin. Í þennan klúbb erum við að sækja um að ganga. Ég vil fá að vita hvort hv. þingmaður sé bara að sækja um eða hvort hún ætli virkilega að ganga í Evrópusambandið.

Svo er það spurningin sem ég ætlaði að koma með að lokum um alla þá vinnu sem þessi aðildarumsókn leggur á öll ráðuneyti á Íslandi, þ.e. vinna og peningar, ferðalög, hótel og svo framvegis sem þetta kostar á sama tíma og það liggur reiðinnar ósköp á að koma bönkunum í gang, að gera einfalda hluti sem hæstv. ríkisstjórn sem hv. þingmaður styður hefur frestað aftur og aftur. Hún er búin að fresta aftur og aftur nauðsynlegum aðgerðum, að taka á bönkunum til dæmis og er með eitthvað allt annað alltaf í gangi, að koma einhverjum seðlabankastjóra út eða eitthvað annað sem hefur ósköp lítið að gera með hag heimila og fyrirtækja á Íslandi.