137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst afskaplega erfitt að skýra frá afstöðu minni í dag þar sem hún er ekki fullmótuð. Hún mótast ekki fyrr en ég fæ í hendurnar þann samning sem þessar aðildarviðræður eiga að leiða til. Ég mun kynna mér samninginn vel áður en ég móta mér skoðun og jafnframt heyra í kjósendum mínum um afstöðu þeirra til hans.

Hvað varðar meðhöndlun Breta og Hollendinga á okkur í Icesave-málinu þá er ég sammála hv. þingmanni um að hún sé fordæmalaus og velti því oft fyrir mér hvort þeim hefði leyfst að bregðast við á þennan hátt hefðum við verið innan Evrópusambandsins (PHB: Það er …) og við stóðum fyrir utan Evrópusambandið, hv. þm. Pétur Blöndal. Ég hef starfað lengi fyrir Evrópusambandið og reynsla mín af því starfi er sú að yfirleitt leitar framkvæmdastjórn ESB sátta meðal aðildarlanda þegar upp rís einhver ágreiningur. Ég tel að það hefði verið reynt lengur og meira að ná sáttum í Icesave-málinu ef við hefðum verið innan Evrópusambandsins, sem dæmi.