137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi koma upp og þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir greinargóða, skýra og málefnalega ræðu um það sem við hér ræðum, aðild Íslands að Evrópusambandinu, og þó sérstaklega fyrir umfjöllun hennar um krónuna og stöðu gjaldmiðilsins. Hún minnti okkur á það sem stundum gleymist, að krónan hefur fallið gagnvart evru um 118% á sl. tveimur árum, og hún minnti okkur líka á annað sem ekki hefur kannski verið mikið í umræðunni í dag en skiptir auðvitað grundvallarmáli fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs, að ef ekki er hægt að renna stoðum undir krónuna og koma okkur svo upp nýjum, sterkum, nothæfum gjaldmiðli þá mun þjóðin þurfa að búa við gjaldeyrishöft jafnvel um einhverra ára skeið, og enginn held ég að treysti sér til að spá fyrir um hversu lengi það standi.

Þetta minnir einnig á það, frú forseti, að ferlið sem Alþingi Íslendinga ákveður vonandi að leggja upp í nú á næstu dögum snýst um að vera í samskiptum og náinni samvinnu við önnur ríki í Evrópu. Snýst um það að halda Íslandi opnu fyrir fólki, fyrir fyrirtæki, fyrir peningum. Þetta snýst um það að endurreisa efnahagslíf Íslands.