137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á mjög athyglisverðan punkt, sem var vöruverð sem töfrasprotaaðdáendur, hv. þingmenn sem trúa á Evrópusambandið, eru sífellt að tala um og hann sagði — og talaði þá væntanlega af reynslu sem fyrrverandi hæstv. landbúnaðarráðherra — að þetta byggist á því að tollar verði felldir niður gagnvart landbúnaði.

Nú hafa menn mikið rætt, og hv. þingmaður gerði það líka, um kostnað og álag á stjórnsýsluna meðan á ferlinu stendur en spurningin er um kostnaðinn eftir að gengið er í Evrópusambandið. Hvað það er metið mikið, hvað það er mikill kostnaður, hvort hv. þingmaður viti hvað það er mikill kostnaður og hvernig hann er í samhengi við það sem mundi kosta að við niðurgreiddum sjálf fyrir landbúnaðinn það sem um er að ræða, þ.e. felldum niður alla tolla og bættum bændum það upp með sama styrkjakerfi og Evrópusambandið og gætum þar af leiðandi náð þessu vöruverði niður án þess að ganga inn í Evrópusambandið. Þar með væri horfinn sá töfrasproti Harrys Potters sem ég hef sagt að hv. þingmenn sem eru aðdáendur Evrópusambandsins séu stöðugt að sveifla.