137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að svara dálítið eftir minni en eins og ég best man þetta var talið á sínum tíma að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að kostnaðurinn við aðildina að Evrópusambandinu gæti verið 10–12 milljarðar kr. árlega. Margt hefur breyst síðan. Við erum væntanlega ekki með sömu þjóðarframleiðslu og við vorum þegar þessi útreikningur var gerður en það hefur líka ýmislegt breyst í Evrópusambandinu. Það hefur stækkað og kostnaðurinn við rekstur þess er orðinn meiri þannig að við getum væntanlega talað um að kostnaðurinn yrði á þessu bili.

Ég mundi hins vegar ekki mæla með því að við gengjum í að aflétta þeirri innflutningsvernd sem landbúnaðurinn hefur nú og taka í staðinn upp þessar greiðslur. Ég held að um það sé ekkert pólitískt samkomulag, auk þess að eins og sakir standa núna í ríkisfjármálum geri ég ekki ráð fyrir því að um það geti orðið nein niðurstaða. En þetta er kannski fyrst og fremst af tilraun hálfu hv. þingmanns til að vekja athygli á þeirri þverstæðu sem er í þessari umræðu um Evrópumálin.