137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst mál að ef peningar væru ódýrari mundi það að öðru jöfnu leiða til meiri eftirspurnar eftir þeim. Við þurfum í sjálfu sér að reyna að gera peningana ódýrari til að koma af stað virkara efnahagslífi hjá okkur þannig að miklir hagsmunir eru í því fólgnir að lækka vextina.

Hins vegar mega menn ekki gleyma því að til þess að við fengjum evruvexti, eða vexti eins og tíðkast á evrusvæðinu, erum við væntanlega að tala um margra ára feril. Við erum svo fjarri því að uppfylla þau skilyrði sem við þurfum að uppfylla áður en við getum orðið aðilar að myntbandalaginu að það er ekki nein lausn á því sem við erum að fást við núna.

Svo má ekki gleyma einu. Það er að í þessari kreppu, sem er líka evrópsk kreppa, hefur vaxtamunurinn aukist milli þeirra ríkja sem eru öflugust innan Evrópusambandsins og hinna sem standa veik. Það hefur verið mat margra hagfræðinga að á meðan peningar voru alls staðar fáanlegir á lágum vöxtum út um allan heim — sem varð náttúrlega að lokum banabiti fjármálakerfisins hér — hafi vaxtamunurinn verið óeðlilega lítill en hann er hins vegar orðinn mjög mikill núna. Ef við tökum dæmi um lönd eins og Þýskaland eða Frakkland og berum þau svo saman við Grikkland, Spán eða Ítalíu þá er himinhrópandi vaxtamunur á milli þessara landa.