137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um þessa tillögu sem liggur fyrir þinginu. Það er hásumar, sólin skín, spáð er góðu veðri á morgun og alla helgina og hér erum við í næturvinnu að tala um þessa þingsályktunartillögu á meðan heimilin í landinu brenna, á meðan fjölskyldurnar í landinu eru örvæntingarfullar yfir afborgunum næstu mánaða. Frú forseti. Þetta er algerlega til skammar, þessi forgangsröðun, hvernig þessi ríkisstjórn fer með sína eigin landa. Asinn er svo mikill við að komast á lendur Evrópusambandsins að ríkisstjórnin hefur ekki tíma til að hugsa um sitt eigið fólk. Í hvaða landi búum við eiginlega og hvernig stendur á þessu? Það er hásumar og hér erum við. Klukkan er að verða hálftíu á föstudagskvöldi. Við erum hér að ræða Evrópusambandið en ekki það sem skiptir máli.

Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt tillögu sem hefur verið mjög til umræðu og ég ætla að fara yfir á eftir ef mér vinnst tími til. En Evrópusambandsaðild er ekki tímabær núna. Sem þingmaður fæ ég senda fjölmarga pósta í hverri viku þar sem fólk spyr mig: Hvað á að gera í þessu landi? Hvernig á ég að fara að því að borga næstu afborgun? Þjóðþekkt fólk og óþekkt, fólk sem ég þekki og fólk sem ég þekki ekki. Ríkisstjórnin áttar sig ekki á því hvaða vanda við stöndum frammi fyrir. Þetta er áherslumálið sem skal keyrt í gegn. Það er hásumar, dagurinn er 10. júlí, takið eftir, 10. júlí. Þetta er til skammar. Ég hef aldrei talið eftir mér að vinna, enda stend ég hér og er stolt af því að geta gert íslensku þjóðinni gagn. Það eru áherslurnar á málinu sem ég gagnrýni, það er flýtimeðferðin sem er gagnrýni verð og er þessari ríkisstjórn til skammar, sérstaklega í ljósi þess að hún stendur ekki einu sinni einhuga að málinu. Hér er minnihlutastjórn — ef fólk hefur ekki áttað sig á því. Hér þarf ríkisstjórnin að sækja styrk sinn út í þingsal til stjórnarandstöðunnar í máli eftir máli. Minnihlutastjórn er starfandi í ýmsum málaflokkum því eins og við vitum er annar ríkisstjórnarflokkurinn margyfirlýstur Evrópuandstæðingur. Þannig var farið með flokkinn í gegnum kosningar. Formaður Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra, upplýsti í umræðunum í dag að hann hefði vitað fyrir fram að ef þessi ríkisstjórn ætti að halda velli eftir kosningar yrði þetta Evrópusambandsmál að vera á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Formaðurinn hélt því leyndu fyrir kjósendum Vinstri grænna alveg fram á síðasta dag. Margir sem höfðu samband við mig, bæði fyrir og eftir kosningar, voru að íhuga að kjósa Vinstri græna af því að þeir voru eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem var búinn að gefa út þá yfirlýsingu að hann væri alfarið á móti ESB. Líklega hafa einhverjir þeirra látið til skarar skríða og kosið þann ágæta flokk.

Stjórnmálaflokkurinn Vinstri grænn er góður flokkur og aðhyllist að mörgu leyti sömu kenningar og Framsóknarflokkurinn. Að mörgu leyti eru þetta mjög áþekkir flokkar. En í síðustu kosningabaráttu skildu leiðir að nokkru þar sem flokkurinn tók svo einarða afstöðu á móti ESB. Þetta er mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í dag, að hann væri að leyna kjósendur, og að sjálfsögðu það fólk sem var í framboði fyrir flokkinn, upplýsingum um hvað væri að brjótast í kolli hans. Jú, frami hans í pólitík, ráðherrastóllinn og ríkisstjórnarsamstarfið við Samfylkinguna gilti meira en umboðið sem hann fékk í kosningunum á fölskum forsendum. Þetta er hræðilega sorglegt mál, sérstaklega þegar við skoðum af hvaða rótum þessi stjórnmálaflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er stofnaður af því að leiðir skildu fyrir 10 eða 12 árum þegar Samfylkingin var stofnuð, út af Evrópumálum. Þá var stofnaður nýr róttækur stjórnmálaflokkur. Nú eru þessir flokkar komnir saman í ríkisstjórn, eru búnir að mynda vinstri velferðarstjórn er mér sagt þó að ég sjái þess engin merki eins og ég hef kynnt mér og þekki velferðarstjórnir. En hæstv. fjármálaráðherra er kominn heim með flokkinn, heim í heiðardalinn, heim undir verndarvæng kratanna og er nánast með sömu stefnu og þeir miðað við það sem hefur komið hér fram, m.a. í Evrópumálum. En allt skal selt fyrir samstarfið og persónulegan metnað hæstv. fjármálaráðherra til að hafa ráðherrastólinn kláran fyrir sig. En svo vill til að hvorki Evrópusambandsaðildarumsóknin né Icesave-málið snýst um þessa ríkisstjórn og þaðan af síður um hæstv. fjármálaráðherra eða höfuð hans eða hvort honum er vært á þessum ráðherrastóli, eins og hann hefur gefið sjálfur í skyn í fjölmiðlum þá leggur hann sjálfan sig undir. Takk fyrir, góðir landsmenn, hann leggur sjálfan sig undir. Ég grínaðist með þetta um daginn og ég spurði líka hverjum væri ekki alveg sama þó að svo væri. En fólk verður að meta hvort svo mikill fórn sé í hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé á vetur setjandi, málin sem hann stendur frammi fyrir og er algerlega búinn að skipta um skoðun í svo sætir algerri furðu. Maður er stundum alveg gáttaður á því sem hæstv. fjármálaráðherra er búinn að éta ofan í sig af fullyrðingum. Ég hef rifjað örlítið upp í blaðagreinum hvernig hann hefur á nokkrum vikum algerlega snúist öndverður í skoðunum sínum. Eina skýringin sem ég finn fyrir þessu er að ráðherrastóllinn sé svo mikilvægur fyrir persónulegan metnað hans að það eigi að fórna bæði þjóð og landi fyrir þann metnað.

Það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu er hvernig fólkið í landinu hefur það því að eins og ágætur maður sagði þegar Evrópusambandið var til umræðu á sínum tíma, þá ættum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu í styrkleika okkar en ekki veikleika. Frú forseti. Við erum á hnjánum sem þjóð og hvernig eigum við að geta tekist á við samningamenn Evrópusambandsins — samninganefndirnar sem fara frá Íslandi með þá reynslu í farteskinu sem samninganefndin kom heim með gegnum Icesave-samningana? Núna fyrir helgina upplýstist í þinginu að Íslendingar hefðu eytt 10–20 millj. kr. í samningaviðræðurnar meðan Hollendingarnir einir eyddu rúmlega milljarði íslenskra króna í þær. Hvernig eigum við, svona lítil þjóð sem raunar hefur ekki fjármagn til að reka ríkið þannig að hægt sé að standa við lögbundnar skyldur þess, hvernig eigum við að geta mætt þessum hákum sem eru þarna úti, frekar en í Icesave-málinu? Þetta er ofboðsleg bjartsýni og með ólíkindum hvernig þetta mál er komið fram en hæstv. utanríkisráðherra hefur verið sprækur í dag. Hann hefur verið flissandi kátur yfir þessu máli enda er þetta eina stefnumál Samfylkingarinnar og, eins og ég skrifaði í blaðagrein fyrr í sumar, ef hún kemur ekki þjóðinni inn í Evrópusambandið getur hún lagt sjálfa sig niður því að þetta er eina stefnumál hennar og lausn hennar á öllum vandamálum er að ganga í ESB.

Þegar ég hitti í kosningabaráttunni ágæta frambjóðendur Samfylkingarinnar á fundum var nánast alveg sama hvað um var spurt. Ef það sneri að efnahagsmálum eða einhverju öðru sem laut að stjórninni í landinu þá var svarið alltaf ESB. Þetta var álíka frasi eins og — ég verð að skjóta því að, frú forseti, þegar ég er að tala um þetta — þetta var svipaður frasi eins og þegar spurt var um velferðarmál, hvað ætti að gera í velferðarmálum og hvernig heilsugæslan yrði, þá var frasinn: Það er eitt svar við því, það er heilög Jóhanna. Svona er þetta skrýtið með þennan flokk sem heitir Samfylkingin. Fékk 29,8% fylgi í kosningunum — ég óska til hamingju með það ef ég hef ekki gert það áður — en við erum sem sagt að sækja um aðild að Evrópusambandinu þar sem drifkrafturinn er tæp 30% af fylgi flokkanna í kosningum í vor. Enda finnur maður alveg og sömuleiðis aðilar sem ég hef talað við og hafa rætt við mig, að það vantar að allan eldmóð og áhuga í þessa umsókn. Hann er ekki fyrir hendi. Hvernig á enda að vera hægt að fara af stað með svo stórt mál þar sem helmingur samstarfsflokksins fylgir ekki með? Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Ég segi svo sem ekkert að eldmóðinn vanti í hæstv. utanríkisráðherra né sjálfstraust, eins og hann sagði sjálfur áðan. Hann trúir því að hann hafi traust erlendis þrátt fyrir að hann hafi verið utanríkisráðherra í stjórninni sem fór á höfuðið, sem setti allt saman hér á annan endann (Gripið fram í: … þingmaðurinn að meta sjálf.) en hann vantar alls ekki sjálfstraustið. Ég met það.

Ég var líka að setja mig, hæstv. utanríkisráðherra, í þau spor hvernig það verður þegar farið verður að bera saman nafnalistana, þegar þeir fara að sjá hverjir áttu þátt í hruninu og hverjir stóðu á vaktinni, (Utanrrh.: … Framsóknarflokkinn.) því að allt er þetta nú — fyrirgefðu, hvað segirðu? (Utanrrh.: Þá þýddi ekki að senda Framsóknarflokkinn.) Þú sagðir að vísu sjálfur hér í dag að það ætti að vera fjölskipað stjórnvald sem færi til Brussel og þá — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmann á að tala við …)

Já, afsakið. Hæstv. utanríkisráðherra sagði sjálfur hér í dag að það ætti að vera fjölskipað stjórnvald sem leiddi þessar viðræður úti í Brussel og mér skildist að Framsóknarflokkurinn fengi kannski einn fulltrúa þótt ekki væri meira. (Utanrrh.: Árni og Sigmundur.) Þú ert að beina því … að það þýddi ekki að — afsakið, hæstv. utanríkisráðherra vill meina að Framsóknarflokkurinn eigi ekki fulltrúa til að fara þarna út en nú er hann búinn að nafngreina einstakling þannig að hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að treysta Framsóknarflokknum til einhvers. (Gripið fram í: … með Sigmundi?) (Gripið fram í: En Sjálfstæðisflokkurinn ekki?) Ég nefndi að þetta væri fjölskipað stjórnvald þannig að þetta hlýtur að koma í ljós, en traustið vantar algjörlega hjá manni, eins og þjóðinni allri. Traustið fór í hruninu, ekki síst traustið til þeirra aðila sem sátu á þingi og báru ábyrgð á því sem gerðist. Þá vísa ég fyrst og fremst til ráðherra Samfylkingarinnar sem fóru með efnahagsmál og utanríkismál.

Þegar nefndarálit meiri hlutans er lagt fram, upp á 60 blaðsíður hvorki meira né minna, fullt af froðusnakki eins og við höfum séð frá hv. Samfylkingu áður, fer maður að efast enda fer ég á eftir yfir (Gripið fram í: Þú ert fyrsta manneskja sem segir það.) hvað virkilega stendur í þessum pappírum sem koma frá Samfylkingunni og hálfum Vinstri grænum. Hér kemur fram hvað það er sem skiptir máli í þessu öllu saman. En fyrst ætla ég að ... (ÁÞS: Þetta eru öll skilyrði Framsóknarflokksins.) Ég á eftir að fara yfir skilyrði Framsóknarflokksins enda eru þau skýr. Að vísu er það kannski óþarfi af því að hæstv. utanríkisráðherra er eiginlega orðinn framsóknarmiðill, framsóknartúlkur. Ég mundi bjóða hæstv. utanríkisráðherra að ganga í Framsóknarflokkinn af því hvað hann hefur mikinn áhuga á honum (Utanrrh.: Þið hafið aldrei viljað mig.) en ég geri flokknum það ekki, þannig að það tilboð kemur eiginlega ekki til greina.

Það er eins og hæstv. ríkisstjórn átti sig ekki á út á hvað lýðveldisskipan gengur né að hér sé í gildi stjórnarskrá, slíkur er asinn. Undir venjulegum kringumstæðum ætti þetta ákvæði, um að afsala sér valdi, að vera inni í stjórnarskránni. En svo við förum fyrst yfir hvernig valdinu er skipt hér á landi þá er í 2. gr. stjórnarskrárinnar kveðið skýrt á um þrígreiningu ríkisvaldsins. Þar segir að forseti Íslands og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld fari með framkvæmdarvaldið og svo séu dómstólarnir sjálfstæðir.

Hér hefur verið gengið á þessa þrískiptingu. Framsóknarflokkurinn hafði m.a. á stefnuskrá sinni fyrir kosningar, og barðist fyrir því á þinginu, að hér yrði stjórnlagaþing svo að hægt væri að koma einhverju viti í stjórnarskrárbreytingarnar sem hefur verið reynt að gera undanfarin ár en ekki tekist þar sem pólitískir hagsmunir eru svo miklir. Þeir sem hafa verið settir í þessa nefnd hafa ekki náð neinum árangri vegna þess að það er alltaf stoppað. Þarna var fundin leið til þess að ná fram breytingum en hún var ekki tekin upp og ekki samþykkt. Þessi yfirgangur framkvæmdarvaldsins við löggjafarvaldið hefur valdið mér miklu hugarangri og ég óttast hvernig þetta er orðið.

Framkvæmdarvaldið kemur hér inn með nánast alla löggjöf. Löggjafinn á að samþykkja lögin en ég bendi á það … — Frú forseti, er hægt að hafa einn fund í salnum? — Takk.

Framkvæmdarvaldið á að sjá um framkvæmdir en löggjafinn á fyrst og fremst að setja lög. Löggjafarvaldið á ekki að taka ákvarðanir fyrir framkvæmdarvaldið eins og liggur fyrir í þessari tillögu. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga sem ríkisstjórnin stendur ekki einhuga að baki, henni er skutlað inn í þingið og stólað á að stjórnarandstaðan komi að málinu og bjargi ríkisstjórninni fyrir horn. Þá er löggjafinn farinn að taka ákvarðanir fyrir framkvæmdarvaldið af því að þetta er ósk hluta framkvæmdarvaldsins en ekki þess alls. Þetta er afar sérkennileg staða og einsdæmi.

Svo get ég ekki látið hjá líða að tala um framkvæmdarvaldið og yfirgang þess. Alveg ágætis hv. þingmaður gekk á dyr í dag vegna þess að aðilar í framkvæmdarvaldinu höfðu beitt hann svo miklum þrýstingi að hann treysti sér ekki til að sitja hér í salnum og fylgja sannfæringu sinni í umræðu, honum hafði verið hótað svo mikið. Þetta er alvarlegt. Ég sagði í ræðu fyrr í dag að ég hefði orðið sorgmædd yfir þessum tíðindum og ég varð líka sorgmædd yfir því að forsetinn greip ekki inn í og gerði fundarhlé til að kanna þetta mál. Ef framkvæmdarvaldið gengur fram með hótunum af þessu tagi er löggjafarvaldið farið fyrir lítið.

Nú er komið að því sem ég hef óttast svo mjög eftir að ég var kjörin þingmaður, að þurfa að bera þinglega ráðherraábyrgð á ríkisstjórninni af því að hún er ekki fær um að sjá um sín mál sjálf eða að koma stefnumálum sínum í gegn. Hér situr minnihlutastjórn í nokkrum málum.

Annars staðar á Norðurlöndunum eru mjög virkar og sterkar stjórnarskrár. Stjórnarskráin okkar er mjög góð en hún er orðin öldruð, frá 1944, og inn í hana vantar t.d. ákvæði um það þegar vald er framselt til alþjóðlegra stofnana og yfirþjóðlegra stofnana. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, ég er óþreytandi við að benda á að þetta ákvæði er ekki í stjórnarskránni okkar og þessi aðildarumsókn að Evrópusambandinu er komin allt of langt miðað við stjórnarskrána.

Úr því að ákvæði um framsal valds til yfirþjóðlegra og alþjóðlegra stofnana er ekki í stjórnarskránni verður tillagan sem liggur fyrir, um að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu að afloknum aðildarviðræðum, verði það samþykkt hér, ekki bindandi eins og margoft hefur komið fram.

Óskastaða mín, og það sem ég hef lagt til í nokkur ár, er að stjórnarskránni verði fyrst breytt með ákvæði um valdaafsal. Þá væri jafnframt sett inn í stjórnarskrána ákvæði um að ef þetta vald væri framselt færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Þjóðin sjálf mundi taka lokaákvörðun og úrslit atkvæðagreiðslunnar mundu gilda. Reynt var að breyta stjórnarskránni hér fyrir síðustu kosningar. Lítil áhersla var lögð á þetta ákvæði og stjórnarskrárbreytingar náðust ekki í gegn þannig að nú er farin baktjaldaleið að þessu, að sækja fyrst um aðild, sem er að mínu mati brot á stjórnarskrá eins og margir stjórnskipunarfræðingar töluðu um þegar EES-samningurinn var samþykktur. Margir komu fram og töldu að það hefði verið brot á stjórnarskrá og að valdaframsalið hefði verið of mikið. Náist samningar skal koma með þá heim, breyta stjórnarskránni undir miklum þrýstingi frá Evrópusinnum og Evrópuandstæðingum, sem kann ekki góðri lukku að stýra, og áður en það er gert á að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ganga eigi inn eða ekki. Sú atkvæðagreiðsla getur aldrei orðið annað en ráðgefandi fyrir stjórnvöld. Ég segi hér og nú að þeim stjórnvöldum sem sitja við stjórnartaumana, verði þau við völd þá, treysti ég ekki til þess að fara að vilja þjóðarinnar af því að það er búið að svíkja allt sem hægt er að svíkja. Við sjáum það best á Icesave-samningnum. Það var farið af stað með ákveðið mál og ákveðin markmið en allt saman var svikið.

Undir þessa stjórnarskrárhugsun taka bæði Björg Thorarensen og Davíð Þór Björgvinsson í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Þar eru ýmis stjórnskipunarákvæði reifuð, mjög góð og holl lesning. Það eru t.d., svo ég vitni hérna aðeins í hvernig þetta er annars staðar á Norðurlöndum, efnislega áþekk ákvæði í stjórnarskránum þar.

Til dæmis er ákvæðið að finna í 93. gr. stjórnarskrár Noregs, það var lögtekið af Stórþinginu 1962 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Til þess að tryggja alþjóðafrið og öryggi eða efla alþjóðlega réttarskipun og samvinnu getur Stórþingið samþykkt með 3/4 atkvæða að alþjóðasamtök, sem Noregur er aðili að eða vill gerast aðili að, geti á efnislega afmörkuðu sviði farið með þær valdheimildir sem ella heyra undir valdhafa ríkisins.“

Þarna eru rökin komin fyrir því sem stjórnarliðar hafa haldið fram, og þá sérstaklega þeir aðilar Vinstri grænna sem eru meðmæltir þessari tillögu, að Norðmenn hefðu farið klofnir í aðildarumsókn. Gjarnan er talað um að Gro Harlem Brundtland hafi ekki haft flokkinn á bak við sig. Því er til að svara, ég hef reynt að svara þessu en ekki fengið hljómgrunn, að afsalsákvæðið var inni í stjórnarskránni hjá þeim og ekki nóg með að valdaafsalsákvæðið sé í stjórnarskránni heldur er það ákaflega vel varið í Stórþinginu, þannig að við getum séð hvað við erum að fara kolvitlausa leið að þessu. Hún hafði trú á Evrópusambandinu, að það gæti gert eitthvað fyrir Noreg. Valdaafsalsheimildin var í norsku stjórnarskránni og hún fer með þetta þarna út ásamt nokkrum þingmönnum, nær einhverjum samningi, kemur með hann heim og hann er felldur í annað sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þessu er stór munur, að fara með klofinn flokk og ákvæðið til staðar í stjórnarskránni. Hér höfum við ekki slíkt ákvæði í stjórnarskránni, hér er stjórnskipanin byggð svo upp en þetta er stórt mál og stjórnskipunarfræðingar eru sammála um að þegar svona stórt mál er á ferðinni beri ríkisstjórninni að standa að því heil og óskipt.

Við höfum dæmi frá síðustu árum um hvernig gengið hefur að ná þessu ákvæði inn í stjórnarsáttmála. Þetta er í þriðja sinn sem Samfylkingin fer í ríkisstjórn og fyrst núna sem hún kemur þessu inn í stjórnarsáttmála. Frú forseti, fyrirgefðu, þetta heitir víst ekki stjórnarsáttmáli, þetta heitir samstarfsyfirlýsing og eftir því sem ég hef heyrt frá innsta koppi í Vinstri grænum er það vegna þess það væri ekki hægt að kalla þetta ríkisstjórnarsáttmála út af akkúrat þessu ESB-ákvæði. Þess vegna var ákveðið að hafa þetta svona frjálslegt, þetta væri samstarfsyfirlýsing, enda hefur maður sjaldan séð jafnmikið frelsi og miklar andstæður í einum stjórnmálaflokki sem stendur þó að því að reka hér ríkið og vera hluti af framkvæmdarvaldinu. Þetta var nú aðeins um þetta.

Þá langar mig til þess að fara hér örlítið inn á þetta nefndarálit. Ég fór að lesa mér til — þetta er mjög vel unnið, ég er ekki að gera lítið úr því — lesa mér til um hvernig meiri hluti utanríkismálanefndar álítur að ferli umsóknar sé. Það er mjög jákvæð greinargerð sem fylgir með tillögunni, minnir mikið á greinargerðina með Icesave-samningnum. Þetta er hvatningarlesning og það jákvæða dregið fram enda er það vissulega vilji meiri hluta utanríkismálanefndar að þetta mál nái í gegn.

Það er ansi skemmtilegt sem kemur fram hér, með leyfi forseta, ég vitna óbeint í fund sem sendiherra Íslands í Brussel kom á, um tímasetningar aðildarumsóknarinnar, hvort þær mundu skipta máli eða ekki skipta máli.

Ríki skiptast á formennsku í ESB á hálfs árs fresti og svo heppilega vill til fyrir suma að Svíar tóku við formennsku 1. júlí þessa árs, núna fyrir 10 dögum. Svo segir í framhaldinu að að mati ýmissa gesta — og auk þess sendiherra — sem komu á fund nefndarinnar mundi það skipta verulegu máli fyrir Ísland að aðildarumsókn sé lögð fram í formennskutíð Svía.

Frú forseti. Ég skil ekki svona dylgjur því að grunnur Evrópusambandsins byggist á meðalhófi og jafnræði. Þessi Svíagulrót er fyrir neðan allar hellur, að reyna að telja þingmönnum trú um að það skipti einhverju máli að Svíar sitji þarna þegar aðildarumsóknin er lögð fram. Þetta tekur ekki nokkru tali, þetta er ekki málflutningur sem er boðlegur íslenska þinginu, hvað þá heldur íslensku þjóðinni. Það sem Evrópusambandið gengur út á er meðalhóf og jafnræði. Þau ríki sem eru komin inn í sambandið sjá um að meðalhóf og jafnræði sé í heiðri haft. Ríkin sem hafa komist í gegnum smugurnar og uppfyllt þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að komast inn í Evrópusambandið, passa upp á að það sé jafnræði milli þeirra og ríkja sem koma ný inn.

En varðandi þennan Svía sem hefur haldið þessum rökum fram — og einnig gestir sem hafa komið að heimsækja þingflokk Framsóknarflokksins — mér þóttu það nánast vera dylgjur með umsóknina að Svíar þyrftu að vera þarna. Hins vegar runnu á mig tvær grímur þegar fóru að berast af því fregnir að viðkomandi aðili, sem er tekinn við formennsku, hafi bloggað á heimasíðu sinni að það væri mikill fengur í því að fá Ísland inn í Evrópusambandið. Það væri mikill fengur fyrir Evrópusambandið að Ísland gengi þar inn til að gæta og styrkja hagsmuni Evrópusambandsins í Norðurhöfum. Maður er ekki fæddur í gær. Ég hef bent á það alla kosningabaráttuna og síðan ég settist á þing að Evrópusambandið er auðlindasnautt. Evrópusambandið vantar auðlindir. Þetta eru ef til vill sameiginlegir hagsmunir en hagsmunir Evrópusambandsins eru meiri en okkar af inngöngu okkar.

Eins og hv. þingmaður kom inn á áðan var fátt um svör þegar hæstv. utanríkisráðherra var spurður hvort búið væri að líta til annarra átta en til Evrópusambandsins. Af hverju hefur ekki verið litið til þess hvort við eigum eitthvað sameiginlegt með NAFTA? Af hverju hefur ekki verið litið til þess hvort við getum komið á einhverju samstarfi með norðurslóðaþjóðum? Hér er alger einstefna. Það er ekkert annað í boði hjá stjórnvöldum en að ganga í Evrópusambandið. Við liggjum á mótum fleka Ameríku og Evrópu og hér er alltaf látið eins og Evrópa sé það eina sem við getum hallað okkur að.

Kaupmannahafnarviðmiðin eru á bls. 6. Þau eru frá 22. júní 1993 og þau gera hvorki meira né minna en að skera úr um hvort ríki fullnægi skilyrðum aðildar að ESB. Nú skulum við setja okkur í spor þjóðarinnar. Við skulum hugsa í eina mínútu um hvað við skuldum mikið, hvernig þjóðin stendur, hvernig heimilin standa, ástandið allt og þær hörmungar sem þjóðin gengur núna í gegnum. Skilyrði fyrir aðild að ESB eru skilgreind svona í Kaupmannahafnarviðmiðunum, með leyfi forseta:

„Aðild tilskilur að umsóknarríki búi við stöðugar stofnanir sem tryggja lýðræði, …“ Sáum við ekki í dag hvað gerðist hér? Er það lýðræðisríki þegar þingmenn eru múlbundnir af framkvæmdarvaldinu svo eitt dæmi sé tekið? Réttarríkið, ég hef bent á það í óteljandi ræðum hér á Alþingi að réttarríkið er í hættu því hér eru sett lög sem fara á svig við stjórnarskrá, lög sem uppfylla ekki stjórnarskrá. Hér er ástandið orðið þannig að ekki er hægt að fullnægja refsingum, varðandi fangelsin. Réttarríkið er í stórkostlegri hættu, ég hef bent á það.

„… mannréttindi og virðingu fyrir minnihlutahópum og vernd þeirra …“ Ég fellst alveg á að við berum virðingu fyrir minnihlutahópum og höfum það að leiðarljósi en ég velti fyrir mér mannréttindunum. Flokkast það undir mannréttindi í ríki að þegnarnir eru það illa staddir að þeir hafa ekki í sig og á? Eru það mannréttindi að hér hækkuðu skuldir sumra heimila um 60–80% og þeir aðilar og þær fjölskyldur sem búa í þessu húsnæði völdu að fjárfesta frekar í steypu heldur en leggja peningana í banka? Eru það mannréttindi að fólk getur tæpast tórt hér á landi? Jú, úrræði ríkisstjórnarinnar voru lenging lána, frysting, fresta vandanum. Þetta eru ekki mannréttindi að mínu mati. Hér er þjóðin bundin á klafa, ríkisstjórnin gerir ekkert til að rétta fólki hjálparhönd. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu hlýtur að redda þessu.

Höldum áfram með Kaupmannahafnarviðmiðin: „… markaðshagkerfi, sem og getu til að standast samkeppnisþrýsting og markaðsöfl innan sambandsins.“ Hér á ríkið orðið allan rekstur. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta uppfyllt þetta skilyrði? „Aðild gengur út frá getu umsjónarríkis til að fylgja skyldum aðildar, þar með talið að gangast undir markmið um pólitískt og efnahagslegt bandalag og myntbandalag.“ Frú forseti, ég ætla ekki einu sinni að ræða hvenær við getum að öllum líkindum tekið upp evru. Maastricht-skilyrðin eru svo óralangt í burtu en eins og ágætur ungur þingmaður sagði í þingflokknum okkar: „Almáttugur, ég verð orðinn sjötugur þá.“ Og ég hugsaði með mér að ég væri eldri en hann.

Þá spyr ég eins og áður í ýmsum málum, t.d. í Icesave-deilunni, þegar komið hefur í ljós að þjóðarbúið skuldi meira en þessi 240% sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að þanþol þjóðarinnar sé: Er málið kannski þannig vaxið að við uppfyllum ekki skilyrðin sem Evrópusambandið setur okkur? Erum við þá stödd á sama reit og með Icesave-samninginn, að það benda allar líkur til að Icesave-samninginn sé ekki hægt að samþykkja á Alþingi því að skilyrðin í honum eru þegar fallin úr gildi? Segja ekki Kaupmannahafnarskilyrðin að við eigum engan séns í þetta? Er þá ekki skynsamlegra að eyða á næstu mánuðum og næstu árum fjármunum, þeim tíma og þeirri orku í annað en þessa aðildarumsókn? Er ekki betra að kæla þau í 2–3 ár og reyna að nota þessa fjármuni, orku, peninga og mannafla í að koma þjóðinni á fætur? Er það ekki betra? Ég spyr. Þessi gagnrýni hefur greinilega ekki farið fram í utanríkismálanefnd því hér stendur, með leyfi forseta: „Ekki þarf að efast um að Ísland uppfyllir Kaupmannahafnarviðmiðin.“ Ég spyr: Með hvaða gleraugu var fólk að vinna þessar tillögur? Þetta er blekking. Hér eru blekkingarstjórnvöld við stjórnvölinn. Ég hef bent á það áður. Það er farið illa með íslensku þjóðina, íslenska þjóðin er hunsuð, henni er ekki hjálpað og svona lagað er borið á borð fyrir okkur sitt hvora vikuna í þinginu. Hér er unnið á nóttunni, hér er unnið um helgar um hásumar bara til að koma þessum málum áleiðis. Þetta er algerlega með ólíkindum.

Nú ætla ég að taka fyrir bls. 39. Hún er það sem skiptir máli í þessari tillögu. Bls. 1–38 skipta engu máli. Bls. 40–60 skipta engu máli því að þetta er greinargerð með þingsályktunartillögu. Það sem felst í að leggja fram þingsályktunartillögu þarf að koma fram í texta tillögunnar til að textinn fái vægi. Greinargerð skiptir afar litlu máli, alveg eins og með lagasetningu og lög, greinargerðin með lögunum er ekki lagatexti. Oft er að vísu í dómsmálum farið í greinargerðina til að finna út hugsun og vilja löggjafans, hvað hann átti við með þessari og þessari lagagrein, en greinargerð er ekki lög. Greinargerð er ekki lagasetning. Eins er það með þetta mál. 60 blaðsíður á pappír með yfirlýsingum, velviljayfirlýsingum. Jú, einhverjum skírskotunum í skýrslur sem ég geri ekki lítið úr. Já, 60 blaðsíður á pappír, frábært. Vinstri grænir fara með umhverfisráðuneytið.

Að endingu kemst utanríkismálanefnd að því að það séu … ein, tvær, þrjár, fjórar línur sem á að fara með til Brussel undir forustu hæstv. utanríkisráðherra, sem var utanríkisráðherra þegar hrunið varð. Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar sækja okkur til saka, þeir eru í deilu við okkur. Hér er háð stríð án venjulegra vopna. Við ætlum að senda hæstv. utanríkisráðherra til Brussel að semja við þessar þjóðir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Frú forseti, þetta er afar ótraustvekjandi. Ég veit ekki alveg á hvaða leið við erum. Þingið mun þó fyrir rest útkljá þetta.

Tillaga framsóknarmanna sem samþykkt var á flokksþingi er afdráttarlaus. Hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið það ómak af mér að reifa hana og óþarfi að reifa hana aftur fyrir þinginu en hún byggist á því að Framsóknarflokkurinn vill sækja um aðild að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem eru í nokkrum liðum. Þar vegur að sjálfsögðu hæst fullveldið okkar og óskorað forræði yfir auðlindunum. Auðlindirnar megum við aldrei láta af hendi. Svo er þar ákvæði um landbúnað og sjávarútveg, svo ég tæpi á því helsta. Þetta er alveg skýrt og þarf ekki að túlka neitt frekar þrátt fyrir góðan vilja utanríkisráðherra við að reyna að leita fylgis við sína tillögu, af því að innan ríkisstjórnarinnar er ekki full mæting í atkvæðagreiðsluna um að fara þessa leið. Á hátíðisdögum er talað um að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eigi að fá að greiða atkvæði eftir samvisku sinni og sannfæringu, en sannfæring þeirra og samviska má samt ekki ganga svo langt að þeir geti staðið með öðrum þingmönnum að breytingartillögu við tillöguna sem hér liggur fyrir. Ég sé engan mun á þessu. Hér er heft frelsi þingmanna, stjórnarskrárbundinn réttur þeirra til að taka þátt í störfum Alþingis. Þetta er sorglegt en svona fór þetta í dag. Framkvæmdarvaldið fer offari.

Frú forseti, nú hef ég í aðalatriðum farið yfir þau mál sem mér finnst athugaverð í þessu nefndaráliti og lýsi því hér með yfir að ég áskil mér rétt til að bæta við í frekari umræðu um þetta mál því eins og tilkynnt var í morgun og þingmenn vita þá hafa þingmenn rétt til að koma oftar en tvisvar sinnum upp í síðari umr. um þingsályktunartillögur.