137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan er það mín skoðun að þessi aðildarumsókn brjóti stjórnarskrána því eins og ég rakti í ræðu minni þá höfum við ekki þetta fullveldisákvæði sem til dæmis hin Norðurlöndin hafa í sinni stjórnarskrá. Það er alveg klárt. Þessi umræða fór mjög mikið fram hér þegar EES-samningurinn var samþykktur akkúrat líka á þessum forsendum, hvort það mundi ganga of langt því við höfðum ekki þetta fullveldisafsal í stjórnarskránni.

Stjórnvöld þau sem nú ríkja — og ég hef aðeins verið að benda á það í mínum ræðum að réttarríkið sé í hættu. Þetta er akkúrat dæmi um að réttarríkið okkar sé í hættu. Hér er vaðið yfir stjórnarskrána og opinberar reglur sem hafa gilt hér í marga tugi ára með til dæmis þessu atriði hér.

Vissulega er það rétt sem hv. þingmaður segir um það að þegar í ljós kemur að stjórnarskrárbundinn réttur var brotinn á öryrkjum varðandi tekjutengingu við maka þá brást líka löggjafinn við. Við getum ekki brugðist við með þessum hætti þar sem stjórnarskráin er sett af stjórnskipunarvaldi sem eru tvö þing og kosningar á milli. Þess vegna var svo mikilvægt að ná þessari stjórnarskrárbreytingu inn fyrir kosningarnar núna áður en þessi hringekja fór öll af stað. Ferlið er svona núna: Að sækja um aðild að Evrópusambandinu, samningar, komið heim með samning. Það á að leggja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki bindandi fyrir stjórnvöld. Sé samningurinn samþykktur í ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá þarf að rjúfa þing, breyta stjórnarskrá og breyta þá fullveldisafsalinu. Þetta er kolvitlaus leið og ég hef margbent á þetta. Ég fór í utanríkismálanefnd og talaði fyrir þessu þar og það er náttúrlega ekki hlustað á þessi rök frekar en annað.