137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég man gjörla þá umræðu sem var út af kvótamálinu, hæstaréttardóminn um kvótamálið og sömuleiðis um öryrkjadóminn. Ég man eftir því hvað mikið var um heitingar þingmanna og ég man einstök ummæli þingmanna, sérstaklega Vinstri grænna um að menn væru að brjóta stjórnarskrána. Ég man eftir því hvað menn flýttu sér mikið við að breyta þeim lögum sem Hæstiréttur dæmdi andstæð stjórnarskránni.

Hér er hreinlega verið að leggja til frá Alþingi sjálfu að það eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem við megum ekki gera. Það er mjög athyglisverður punktur og spurningin er: Getur einhver að samþykktri þessari tillögu farið í mál og kært? Ja, hvern? Ráðherrann sem fer út, hæstv. utanríkisráðherra fyrir að ætla sér að brjóta stjórnarskrána meðvitað? (Gripið fram í.) Þetta er mjög athyglisvert. Ég held að menn þurfi að skoða þetta dálítið vel áður en þetta verði samþykkt og (Gripið fram í.) vegna þess — þetta er ekki til að hafa í flimtingum, frú forseti. Við höfum ekki svona í flimtingum, eins og hæstv. utanríkisráðherra vill gera. Við erum að tala um stjórnarskrána. Og þó það séu á henni gallar og þó ég hafi barist fyrir því í vor að menn samþykktu breytingu á 79. gr. þannig að auðveldara yrði að breyta stjórnarskránni héðan í frá — ég reyndi eins og ég mögulega gat að sannfæra menn um að breyta. (Gripið fram í.) Það tókst ekki að breyta 79. gr. þannig að ferli (Gripið fram í.) stjórnarskrárbreytinganna yrði einfaldara. (Gripið fram í.) Frú forseti. Er ég ekki með orðið eða? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Já, ég ætla að vona að ég fái svona tíu sekúndur í viðbót.

Ég barðist fyrir því í vor að 79. gr. yrði breytt þannig að hægt yrði að breyta stjórnarskránni á auðveldan hátt með þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er það ekki hægt og ég sé ekki hvernig í ósköpunum menn með virðingu fyrir stjórnarskránni geta farið til Brussel og gert einhvern samning um aðild að bandalagi vegna þess að það brýtur stjórnarskrána.