137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:18]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í tilefni af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um hríð á ellefta tímanum á föstudagskvöldi um hábjargræðistímann nefna það að ég geri engar athugasemdir við það að við séum hér að störfum á kvöldfundi að sumri til. Þó að veðrið sé gott þá er það bara einfaldlega þannig að hér starfar sumarþing hins háa Alþingis og það hefur alltaf verið þannig þegar stór mál eru á dagskrá á hinu háa Alþingi að þau taka tíma og þá er brugðið á það ráð að halda kvöldfundi og jafnvel helgarfundi. Það er nú ekkert nýtt í því. Mér finnst það óneitanlega svolítið skondið ef menn eru að kvarta undan því að þurfa að halda ræður í sólinni af því að vetri til kvarta þeir stundum undan því að þurfa að halda ræður í myrkri. En svona er það nú misjafnt hvernig liggur á hv. þingmönnum.

Til að snúa mér að efni máls, frú forseti, þá hef ég hlýtt af athygli á ræður þær sem haldnar hafa verið hér í dag. Ég vil segja eins og hæstv. utanríkisráðherra að það sem kemur mér kannski ekki á óvart en það sem mér finnst gleðilegt við þá umræðu sem hér fer fram er hversu mikill samhljómur er í raun í ræðum þingmanna sem hér hafa talað í dag. Þó svo að menn stilli sér upp í hanaslagi eða einhverja aðra slagi þá er það í raun þannig — ég nefndi það líka þegar þingsályktunartillagan var hér til fyrri umræðu 28. maí síðastliðinn — að í raun erum við á einu máli um hvaða hagsmuni þarf að standa vörð í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Menn deila reyndar um aðferðir og vinnubrögð og svona ýmislegt annað sem reyndar hefur verið rætt í þaula í hv. utanríkismálanefnd á undanförnum sex vikum. En í grunninn er samhljómur í máli þingmanna og gildir þá einu úr hvaða stjórnmálaflokki þeir koma.

Auðvitað er hér um stórpólitíska ákvörðun að ræða. Ég er félagi í stjórnmálahreyfingu sem hefur haft það á sinni stefnuskrá að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og semji um aðild og ég vil að aðildarsamningur sé borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ég hef verið þeirrar skoðunar líklega í hartnær 20 ár að þetta sé nokkuð sem Íslendingar eigi að gera og það er ekki vegna þess að ég hafi í 20 ár verið þeirrar skoðunar að Evrópusambandið mundi bjarga okkur frá sjálfum okkur. Það mun ekki gera það. En ég hef allan þennan tíma verið einlæglega þeirrar skoðunar að Ísland eigi samleið með öðrum Evrópuþjóðum sem sjálfstætt og fullvalda ríki í náinni samvinnu um ákveðin atriði og að sú samvinna fleyti okkur áfram, ekki bara efnahagslega heldur líka lýðræðislega og styrki stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Með slíkri samvinnu heyrist rödd Íslands betur og að Ísland hafi meira að segja í slíkri samvinnu en að standa utan hennar.

Menn hafa varið miklum tíma hér á hinu háa Alþingi í gegnum árin í að reikna sig inn eða út úr Evrópusambandinu. Vissulega má tína til bæði ávinning og kostnað af slíku samstarfi. Það á við um allt sem við gerum. Það á við um allar pólitískar ákvarðanir sem eru teknar hér á þessari löggjafarsamkomu. En ákvörðunin um að ganga í Evrópusambandið eða stefna að samstarfi í Evrópusambandinu er ákvörðun um samastað. Hún er pólitísk ákvörðun um ferli um það hvert þessi þjóð vilji stefna bæði til skamms og langs tíma. Kannski væri hyggilegra ef við gæfum okkur betri tíma hér við þessa umræðu til að ræða um einmitt þetta í stað þess að vera svolítið upptekin, að því er mér finnst, af aukaatriðum í þessari umræðu. Ég ætla ekki að standa hér og dæma orð annarra hv. þingmanna heldur einfaldlega að lýsa þeirri skoðun minni að verði það niðurstaða hins háa Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu nú í sumar þá markar það að mínu viti mikil tímamót í sögu Íslands og lýðveldisins, gleðileg og tímabær, og það mun gefa okkur skýrari sýn, skýrara verklag, jafnvel meira aðhald um sum þau verkefni sem hér þarf að inna af hendi og það mun senda mjög skýr skilaboð til allra okkar nánustu samstarfsþjóða og viðskiptalanda um það hvert við stefnum. Það skiptir líklega mestu núna að það komist skýrt til skila þannig að Ísland geti aftur unnið sér traust og tiltrú í samfélagi þjóðanna.

Það hefur nokkuð verið rætt um það hér í dag að mikill asi hafi verið í umræðu og í vinnu utanríkismálanefndar. Eins og ég nefndi áðan var mælt fyrir tillögunni, hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir þeirri tillögu sem hér ræðir um 28. maí síðastliðinn. Síðan eru liðnar um það bil sex vikur eða einn og hálfur mánuður og haldnir hafa verið upp undir 20 fundir ef ég man rétt í utanríkismálanefnd, langir, góðir, efnismiklir, með fjölda gesta, fjölda umsagna og í raun hefur verið rætt í þaula það sem hægt er að ræða áður en gengið er til þess verks að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Við vitum auðvitað að ferlið sem síðan tekur við skiptir miklu meira máli en það ferli sem við höfum nú gengið í gegnum á undanförnum vikum, samningaferlið sjálft, hvernig við byggjum það upp, hvernig samningaviðræðurnar fara fram og hvernig því vindur fram. Þar mun reyna á stjórnvöld, ríkisstjórn, Alþingi, hagsmunasamtök, alla sem hafa hagsmuna að gæta og þeir, leyfi ég mér að fullyrða, eru þorri þjóðarinnar í þessu stóra máli.

Ég geri þennan tíma að umræðuefni vegna þess að það kom fram í umfjöllun nefndarinnar á einum fundinum að þegar frændur okkar í Noregi ákváðu í annað sinn að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 1992, held ég að það hafi verið, þá flutti forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, stefnuræðu um það í Stórþinginu norska 16. nóvember. Umræður um umsókn fóru fram í þinginu þrem dögum síðar eða 19. nóvember og umsókn Noregs til Evrópusambandsins var send út 24. nóvember sama ár, 1992. Ég hygg að þingmenn allir hér séu sammála um að Norðmenn og norska þingið ástundi lýðræðisleg, gegnsæ og góð vinnubrögð. Alla vega þekki ég það ekki að öðru. En það tók Norðmenn átta daga að fara í gegnum þetta ferli. Svo tók við undirbúningsferlið sem tók um það bil hálft ár og svo samningaferli sem tók um það bil eitt ár. Þegar samningur var í höfn var svo gengið til þjóðaratkvæðis. Ég man ekki nákvæmlega hvað margir mánuðir liðu þangað til það var gert. Það gæti hafa verið um það bil hálft ár. Allt þetta ferli varði því í um það bil tvö ár hjá Norðmönnum sem ég held að sé ágætisviðmið fyrir okkur að notast við ef menn vilja gera sér grein fyrir því í hvaða rúmi og tíma og í hvaða tímaramma við erum að vinna.

Þetta segi ég einungis til þess að undirstrika það að utanríkismálanefnd Alþingis hefur unnið afar vel. Þar hafa allir fulltrúar lagt sig fram af heilindum við að afla upplýsinga, fara ofan í saumana á þeim spurningum sem vakna við þá ákvörðun sem Alþingi stendur frammi fyrir, þ.e. að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hygg að þessi vinna hafi verið nauðsynleg, hún hafi verið nefndinni til sóma og auðvitað mun Alþingi og hv. þingmenn búa að þeirri vinnu og þeim gögnum sem aflað hefur verið og að upplýsingum sem fram koma í nefndarálitum frá hv. utanríkismálanefnd.

Eins og gefur að skilja í langri og mikilli umfjöllun nefndarinnar um þessa þingsályktunartillögu kom margt fram og margir gestir vöktu athygli nefndarmanna á mikilvægum og athyglisverðum atriðum. Mig langar til að rifja upp afstöðu Sammála-hópsins svokallaða sem er hópur áhugafólks um aðild að Evrópusambandinu, margra forsprakka úr atvinnulífinu. Þeir komu til fundar við nefndina eins og margir aðrir. Þar var mætt fólk sem hefur gríðarlega góða innsýn í rekstur fyrirtækja, stöðu atvinnulífsins og við hvað er að glíma í íslensku atvinnulífi eftir bankahrunið í haust. Eins og fram kom í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur þá erum við ekki bara að glíma við bankakreppu heldur erum við líka að glíma við gjaldeyriskreppu og það er staða sem fáar þjóðir hafa verið í, þó einhverjar. En það er afar, afar snúin staða og það eru ekki margar leiðir út úr slíkri stöðu.

Á þessum fundi var skiljanlega og eðlilega rætt mikið um gjaldmiðilsmálin og það var rætt mikið um krónuna og nefnd til samanburðar við þá leið sem við í Samfylkingunni tölum fyrir, þ.e. að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka á endanum upp nýjan gjaldmiðil, evru, með öllu sem því fylgir, hver hin leiðin væri. Stundum hefur verið kallað eftir því hér í þingsal að við þurfum að hafa plan B eða varaáætlun eins og við nefnum það líklega á íslensku og það mundi þá væntanlega vera krónuleiðin ef ég má nefna hana því nafni. Hver er þá krónuleiðin sem gæti boðist ef við förum ekki þá leið sem hér er til umfjöllunar og gæti skilað okkur nýjum og nothæfum gjaldmiðli?

Væntanlega mundu áfram vera gjaldeyrishöft um langa hríð. Þau mundu leiða til enn verri lífskjara og enn meiri lífskjaraskerðingar en þeirrar sem nú þegar hefur orðið. Óþarft er að minna á það að á síðastliðnum tveimur árum hefur krónan fallið um 118%. Sammála-hópurinn benti á þá augljósu staðreynd, þó að hún sé ekki mikið í umræðunni, að það er erfitt fyrir fyrirtæki og jafnvel ómögulegt að starfa í landinu nema að til sé framvirkur gjaldeyrismarkaður, eins og það heitir á máli þeirra. Til hvers þarf hann? Jú, til þess að endurfjármagna. Endurfjármögnunarvandinn er grundvallarvandi íslenskra fyrirtækja um þessar mundir. Endurfjármögnunarvandinn er þessi mikli vandi sem stærstu fyrirtæki landsins standa frammi fyrir og það eru til dæmis fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, eins og orkufyrirtækin, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og önnur slík og önnur stórfyrirtæki, einkafyrirtæki líka. Hvað gera menn ef þeir leysa ekki þennan vanda á næstu árum eða næstu mánuðum og missirum?

Eins og þessu var lýst fyrir hv. utanríkismálanefnd þá getur krónuleiðin, eins og ég kýs að kalla hana, ekki leitt til annars en þess að við siglum hagkerfi okkar og samfélagi endanlega í strand í efnahagslegu tilliti. Þeir sem leggjast gegn því að farin sé sú leið að í gegnum aðild að Evrópusambandinu munum við á endanum komast í myntsamstarf og koma okkur upp nothæfum gjaldmiðli sem menn treysta og efnahagslífi og fyrirtækjum sem menn treysta sér til að fjárfesta í, þeir sem vilja fara aðra leið en þessa og væntanlega þá krónuleiðina, því að ég sé ekki að það séu neinar aðrar leiðir færar þótt ýmsar hafi verið nefndar, þeir verða þá að skýra það út fyrir kjósendum, fyrir þjóðinni til hvers það getur leitt og hvers vegna það sé betri leið en sú sem hér er lögð til. Þetta var um gjaldmiðilsmálin.

Auðvitað er ekki hægt að fara inn á öll þau efnisatriði sem nefndin hefur fjallað um. En það vill stundum gleymast í umræðunni um Evrópusambandið að hún snýst um fleira en viðskipti og gjaldmiðil og samstarf á markaði. Eitt af því sem Íslendingar mundu semja um og þyrftu að yfirtaka færu þeir í Evrópusambandið er náttúruverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Við höfum í umhverfismálum innleitt svo að segja alla umhverfislöggjöf Evrópusambandsins á undanförnum 15 árum en náttúruverndin hefur staðið út af.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands — og það er mat þeirra sem að mínu mati gleggst þekkja til — stendur með leyfi forseta:

„Að mati Náttúrufræðistofnunar er margt í löggjöf Evrópusambandsins sem yrði til verulegra bóta fyrir náttúrufræði og náttúruvernd verði af inngöngu Íslands í Evrópusambandið.“

Svo er vísað til umsagnar eða bréfs sem var sent að beiðni forsætisráðuneytis þar sem beðið var um upplýsingar um áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Þetta er reyndar bara eitt dæmi um það sem þarf að takast á við og semja um í aðildarviðræðum. En þetta er hins vegar, eins og á reyndar við um ýmsa fleiri málaflokka innan Evrópusambandsins, ekki mikið í umræðunni og ekki nokkuð sem fólk er hér að fjalla um á hverjum degi en engu að síður afar mikilvægur málaflokkur.

Það sama má segja um — og ég man að ég kom inn á það við fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu — loftslagsmálin og viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Það var líka rætt ítarlega í hv. utanríkismálanefnd. Ég veit ekki hvort allir hv. þingmenn hafi gert sér grein fyrir því en hafnar eru formlegar viðræður við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um náið samstarf í loftslagsmálum, svo náið að það gæti leitt til þess, hvernig sem afgreiðsla þessarar tillögu fer, að þá færu Íslendingar í samstarf á sviði loftslagsmála við Evrópusambandið sem þeir væru aðildarríki.

Annað sem hv. þingmenn hafa kannski ekki rætt mikið hér í dag en var líka rætt í hv. utanríkismálanefnd er þátttaka og áhrif á sveitarstjórnarstigið sem er mjög öflugt og mikilvægur, hvað eigum við að segja, þátttakandi, aðili að samstarfi Evrópuþjóða. Sveitarstjórnarmenn og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa mikinn áhuga og að sjálfsögðu skoðanir á því hvað lúti beint að starfi sveitarfélaganna og löggjöfinni og rammanum um þau og það er ekki lítið sem nú þegar hefur bein áhrif á sveitarfélögin sem hefur komið í gegnum EES-samninginn. Það var fróðlegt og gagnlegt að fá þær upplýsingar og líka að hlýða á mál forsvarsmanna sveitarfélaganna sem hafa greinilega sett sig mjög vel inn í það starf sem Evrópusambandið vinnur á sveitarstjórnarstiginu enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga haldið úti starfsmanni og skrifstofu í Brussel um nokkurra ára skeið, hygg ég að sé, og það hefur greinilega skilað sér mjög vel til þessa stóra hagsmunafélags sveitarfélaga.

Mig langar einnig að gera að umræðuefni það er lýtur að þjóðaratkvæðagreiðslu og breytingum á stjórnarskrá. Við vörðum að sjálfsögðu miklum tíma í þá umfjöllun í utanríkismálanefndinni og fengum alla helstu þjóðréttarfræðinga landsins til okkar. Minnisblað frá Björgu Thorarensen prófessor og Davíð Þór Björgvinssyni, dómara við Mannréttindadómstólinn í Evrópu, liggur fyrir í gögnum nefndarinnar. Þar er mjög skýr lýsing á því hvað gera þarf og ég hygg að þingmenn þekki það mjög vel og hefur nokkuð verið rætt um það hér í kvöld hvernig og hvenær þurfi að breyta stjórnarskrá vegna valdaframsals.

Nú geta menn deilt um röð atburða eða röð ákvarðana. Við ræddum það fram og til baka í nefndinni. En það breytir því ekki, eins og kemur fram í minnisblaði frá Björgu Thorarensen og Davíð Þór Björgvinssyni, að ákvörðunin um að sækja um aðild að Evrópusambandinu er pólitísk. Hún er pólitísk og hún verður aldrei neitt annað en pólitísk. Hvað síðan tekur við, hinar stjórnskipulegu breytingar og þau verkefni sem við öll vitum að við þurfum að ganga í er auðvitað samkomulagsmál á þingi, þ.e. í hvaða röð það er gert. Mikið var um það rætt í nefndinni hvenær í þessu ferli best væri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi aðildarsamning. Menn voru ekki á einu máli um það hvar væri best að hafa hana í röðinni. Afstaða manna virtist stýrast aðallega af því hvort menn litu svo á að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði að vera bindandi samkvæmt stjórnarskrá eða ráðgefandi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þótt niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sé lagatæknilega séð ráðgefandi þá sé hún móralskt bindandi fyrir stjórnmálamenn. Vera kann að þingmenn aðrir séu á öðru máli. Eitt af því sem við veltum upp í umræðum í nefndinni var að vegna þess að nú er stjórnarskrárgjafinn tvö þing og við höfum ekki breytt því enn þá illu heilli — það er mín skoðun — þá gæti að loknu aðildarviðræðuferli og þegar samningur liggur fyrir farið fram kynning á honum og það mætti sjá fyrir sér að þá hefðu líka farið í gegnum þingið þær breytingar á stjórnarskrá sem Alþingi vill gera. Segjum að það sé kannski tveggja ára ferli fram undan. Síðan yrði gengið til alþingiskosninga og greidd atkvæði um samninginn á sama degi. Síðan er það nýs þings að staðfesta stjórnarskrárbreytingar og að staðfesta þá með þeim inngöngu í Evrópusambandið ef það yrði niðurstaðan og þá er ég að tala um að það yrði jákvæð niðurstaða. Þetta eru atriði sem verða njörvuð niður verði það niðurstaða hins háa Alþingis að sækja um aðildina og þá fer hér af stað viðamikið undirbúningsferli bæði hjá löggjafanum og hjá framkvæmdarvaldinu sem tekur nokkra mánuði þar til formlegar aðildarviðræður hefjast.

Frú forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að kafa dýpra ofan í efnisatriði þessa máls að svo stöddu. Það er nú verkefni hv. þingmanna úr öllum flokkum að taka afstöðu til þeirrar tillögu sem fyrir liggur um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og gangi til aðildarviðræðna. Það er í sjálfu sér einföld tillaga og auðskiljanleg. En það breytir því ekki að hún er tímamótaákvörðun stórpólitísk sem gæti haft meiri áhrif á framtíð og vegferð íslensku þjóðarinnar en við getum á þessari stundu sagt fyrir um.