137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega mjúka og fagra ræðu. Hún sagði að það væri samhljómur í umræðunni í dag. Ég frábið mér, frú forseti, að mér séu lögð þau orð í munn.

Ég hef alla vega verið á móti þessari umræðu. Ég hef verið á móti því að ganga í Evrópusambandið. Ef hv. þingmaður skyldi nú ekki hafa heyrt það. Og svo er um fleiri. Hæstv. fjármálaráðherra er líka á móti því að ganga í Evrópusambandið ef hv. þingmaður skyldi ekki hafa heyrt og það eru fleiri, miklu, miklu fleiri. Einn ungur þingmaður gekk út úr salnum í dag og hann sagði: „Mér barst til eyrna að slíkt gæti valdið stjórnarslitum.“ Það sagði hann. Hann var kúgaður til að fara út. Þetta er samhljómurinn sem hv. þingmaður heyrir. Ég er svo aldeilis gáttaður.

Síðan segir hv. þingmaður að þetta sé spurningin um ákvörðun um samastað. Minn samastaður hefur alltaf verið á Íslandi og hvergi annars staðar. Þar er minn samastaður og þar er mitt sjálfstæði og þar á ég heima. Ég á ekki heima í Brussel eða annars staðar í Evrópusambandinu. Það er mjög einfalt og ég ætla að biðja hv. þingmann að fara ekki að skjóta mér þangað.

Svo koma náttúrlega hótanirnar og loforðin, að taka upp evru. Hv. þingmaður veit það, frú forseti, að við tökum ekkert upp evru þó að við göngum í Evrópusambandið. Þó að við værum gengin í Evrópusambandið fyrir hádegi á morgun þá tækjum við ekki upp evru fyrr en eftir 30 ár, segir fjármálaráðuneytið, eftir 30 ár og aðrir hafa sagt tíu ár og ég segi sjö, út af Maastricht-skilyrðunum. Samt er hv. þingmaður að lofa þessu eins og Harry Potter. Það er bara niðurlægjandi fyrir þingið að heyra þetta aftur og aftur. Niðurlægjandi.

Svo kemur hv. þingmaður og lofar og hótar ef við ekki gerum þetta þá fari allt norður og niður. Ég á eftir að ræða um mannréttindin sem hv. þingmaður hefur (Forseti hringir.) margoft talað um.