137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var nú búin að gleyma þessari góðu ræðu sem ég hef greinilega haldið þarna í janúar 2001 og heyri ekki annað en að hún standi bara óhögguð (PHB: Nú?) enda liggur það algjörlega fyrir að gerist Ísland aðili að Evrópusambandinu þá verður það ekki gert nema með stjórnarskrárbreytingu. (Gripið fram í.) Það var fjallað ítarlega um þetta mál í hv. utanríkismálanefnd. Enginn, enginn þeirra prófessora, þjóðréttarfræðinga, lagaspekinga eða annarra sem við töluðum við og fengum á okkar fund sagði að það væri stjórnarskrárbrot að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Enda hvernig mætti það vera, frú forseti? (Gripið fram í.) Hvernig mætti það vera að það að sækja um og semja og leggja svo samning í dóm þjóðarinnar og breyta síðan stjórnarskrá til samræmis við niðurstöðu þjóðarinnar, hvernig má það vera að það sé stjórnarskrárbrot að leggja upp í þá vegferð? (Gripið fram í.) Ég held að enginn hafi þennan skilning á stjórnarskránni (Gripið fram í.) nema kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég veit það ekki.

Það er alla vega algjörlega á hreinu að færustu menn, færustu fræðimenn Íslands á þessu sviði eru á einu máli um að það að breyta stjórnarskránni sé ekki forsenda fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.