137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum, eins og þingheimur væntanlega veit orðið, þingsályktunartillögur tvær um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu frá okkur í stjórnarandstöðunni og um umsókn að Evrópusambandinu frá ríkisstjórninni. Þetta er svo sem búin að vera ágæt umræða. Hún hefur staðið í allan dag. Við höfum verið að kvarta yfir því í stjórnarandstöðunni að hún fari fram á þessum ókristilega tíma, ef svo mætti kalla það. Það er ekki svo að við teljum það eftir okkur heldur finnst mér hálfdapurt að vera hér klukkan fimm mínútur fyrir ellefu á föstudagskvöldi. Þrátt fyrir að þetta sé mikilvægasta mál Samfylkingarinnar, eina mál Samfylkingarinnar segja sumir, og hæstv. forsætisráðherra hafi lagt á þetta mikla áherslu að ekki sé minnst á hæstv. utanríkisráðherra, þá þykir þeim þetta ekki það mikilvægt að þau sitji hér og hlusti á það sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa. (ÞSveinb: Ráðherra er að hlusta á þig.) Það er gott. Hér kallar hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir fram í að hann sé að hlusta á mig og það er ágætt. Ég er ekki að krefjast þess að hann sé ræstur út. En miðað við þá áherslu sem að minnsta kosti annar stjórnarflokkurinn hefur lagt á þetta mál þá finnst mér hreint með ólíkindum hvað það er fámennt hér. En ég ætla ekki að vera eins og presturinn í kirkjunni að skamma þá sem eru viðstaddir. En ég vil vekja athygli á þessu.

Það hefur margt komið fram af því sem ég hafði hugsað mér að ræða hér og ég ætla ekki að endurtaka það neitt sérstaklega. Ég vil þó segja að ræða formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, var mjög yfirgripsmikil og hann fór vel yfir það nefndarálit sem minni hluti nefndarinnar lagði fram, 1. minni hluti, við sjálfstæðismenn. Ég get tekið undir allt sem þar var sagt og ætla ekki til að mynda að eyða miklum tíma í að endurtaka rökstuðning okkar sjálfstæðismanna fyrir þeirri áherslu sem við leggjum á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu heldur vísa í það. Ég vil þó bara segja að í hnotskurn er það skilyrði okkar að láta þjóðina eiga fyrsta og síðasta orðið um það sem þetta snýst um.

Þetta er ótrúlega stórt mál og afar mikilvægt fyrir framtíð Íslands. Þetta er ótrúlega umdeilt og þetta sker flokka eins og hér hefur komið fram. Þetta sker þjóðina. Þetta sker ekki síst höfuðborg frá landsbyggð. Ég þekki það mjög vel sjálf vegna þess að ég, þar til nú fyrir tveimur mánuðum, var þingmaður á höfuðborgarsvæðinu fyrir Suðvesturkjördæmi en er núna þingmaður í Suðurkjördæmi, landsbyggðarkjördæmi og ég finn fyrir mjög miklum mun á málflutningi. Það má eiginlega segja að ég eigi betur heima í mínu nýja kjördæmi vegna þess að ég deili þeirri skoðun með miklum meiri hluta minna kjósenda sem ég hef verið í sambandi við og hitti í kosningabaráttunni að ég er ekki hlynnt aðild okkar að Evrópusambandinu. En við erum ekki endilega að ræða það hér. Við erum að ræða um það hvernig og hvort við eigum að sækja um. Ég get alveg fallist á það og hef sagt það held ég úr ræðustól á Alþingi og í ræðum annars staðar og alveg örugglega einhvers staðar í fjölmiðlum að mér þykir til þess vinnandi að klára þetta mál, ljúka því, koma því út úr heiminum með því að fara í gegnum þetta ferli, sækja um. Ég tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði fyrr í umræðunni að eins og staðan er í dag er ég sannfærð um að þjóðin mundi fella slíkan samning. Þá værum við búin að fara í gegnum þá æfingu og fá þá niðurstöðu. Ég get alveg tekið undir það.

En það skiptir öllu meginmáli hvernig sú aðildarumsókn og hvernig það ferli fer fram og það erum við að ræða hér í dag og um það snýst ekki síst ágreiningurinn, meira að segja á milli þeirra — það hafa verið túlkunarmeiningar hér á stefnu Framsóknarflokksins. Hæstv. utanríkisráðherra hefur gefið sig út fyrir að vera einhver sérstakur túlkur á þeirra stefnu. Því hafa framsóknarmenn andmælt. En framsóknarmenn vilja sækja um aðild. Það er í þeirra stefnu. En jafnvel þeir og ríkisstjórnin geta ekki sammælst um þetta mál eins og það liggur fyrir í dag. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að búið er að gera þetta þannig að undirbúningurinn, framkvæmdin og málsmeðferðin er slík að um þetta er engin sátt og það hefur ekkert, jafnvel þó hv. utanríkismálanefnd hafi unnið vel — allir nefndarmenn hafa sagt það og tekið undir hver með öðrum um það og ég get svo sem vottað það fyrir mína parta að ég hef setið nokkra fundi nefndarinnar sem varamaður í utanríkismálanefnd og ég get alveg vottað um að það verklag sem ég var vitni að var ágætt — en þrátt fyrir það hefur ekki náðst að skapa sátt um það hvernig og hvort við eigum að gera þetta og með hvaða hætti. Það er ömurlegt til þess að hugsa vegna þess að við vitum það öll og það er deginum ljósara að eins og ástandið er í þjóðfélaginu núna þá vantar okkur ekki fleiri ágreiningsmál. Við þurfum að þjappa íslensku þjóðinni saman. Við þurfum að ná hér samstöðu. Ég er þeirrar skoðunar og ég er algjörlega sannfærð um að hægt hefði verið að ná sátt á milli þeirra sem eru hlynntir, stuðningsmenn aðildar og þeirra sem eru andvígir aðild. Sáttin hefði getað falist í þessari tvöföldu atkvæðagreiðslu sem við sjálfstæðismenn leggjum til vegna þess að þá væri umboðið skýrt, umboð þjóðarinnar til þeirra sem færu fyrir Íslands hönd að semja væri þá skýrt. Þar fyrir utan væri þá hægt að gera þetta þrátt fyrir pólitískan ágreining. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin væri klofin þá væri umboðið skýrt og það kæmi beint frá þjóðinni. Þetta held ég að hefði getað verið algjör sáttargjörð í málinu. En það mátti ekki ræða og Samfylkingin í sinni hrikalegu óbilgirni í þessu máli hefur ekki mátt heyra á að minnst að gefa eftir nokkuð af þeirra kröfum og skilyrðum gagnvart þessu máli. Það er rétt sem hér hefur komið fram að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn engist. Hann engist yfir því að það er verið að traðka á þeirra stefnu. Þeir hafa þurft að gefa eftir í öllum meginatriðum. Það er algerlega augljóst og það var svo áberandi í morgun þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom og sýndi ótrúlegan kjark og sagði það hreint út að honum hefði borist það til eyrna að ef hann tæki þátt í þeirri málsmeðferð sem hans sannfæring sagði honum að hann vildi gera þá hefði það þýtt stjórnarslit. Nú vill enginn kannast við að hafa sagt þetta. Ég átti orðaskipti hér við hæstv. fjármálaráðherra og hafði eftir honum úr Morgunblaðinu þar sem hann segir að það væri — hvernig orðaði hann það? — að það væri ekki eðlilegt að — ég ætla að hafa þetta rétt eftir honum — að það væri ekki eðlilegt að menn mynduðu bandalag. Hann segir það ekki ganga að þingmenn flokksins séu að mynda bandalag gegn ríkisstjórninni. Nei, nei, það gengur náttúrlega ekki. En gengur það eitthvað frekar að menn séu hér látnir greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni eða haga sér gegn sannfæringu sinni? Mér finnst það ekkert ganga heldur. Vinstri grænir eru því þarna snúnir algerlega niður.

Hæstv. fjármálaráðherra spurði líka í sinni ræðu hvað ef sú ríkisstjórn sem var hér fyrir daga minnihlutastjórnarinnar hefði haldið, gæti þá verið að við værum samt að ræða þetta? Gæti verið að við hefðum ekkert komist undan því? Gæti verið að þetta hefði verið óumflýjanlegt? Það getur vel verið. Það getur vel verið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði líka verið svínbeygður af Samfylkingunni. Ég ætla ekki að útiloka það miðað við hvernig þeir hegðuðu sér í stjórnarsamstarfi. Ég get alveg sagt það hér að okkur leið ekkert vel í því samstarfi vegna þess að það voru engir samningar virtir um þau mál sem ágreiningur var um. Það var hjakkað og hjakkað. Ég hef sagt að það fór hrollur niður eftir bakinu á mér einhvern tíma í vetur eftir að minnihlutastjórnin tók við og við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason áttum hérna orðaskipti þegar ég spurði hvort stefna Vinstri grænna í ESB-málum hefði breyst. Þetta var að sjálfsögðu fyrir kosningar og hann kom hérna og sagði skýrt: „Nei, nei, að sjálfsögðu hefur hún ekki breyst.“ En hvað gerðist þá? Þá kom þáverandi hv. varaþingmaður Mörður Árnason og túlkaði stefnu Vinstri grænna. Hvað sagði hann? „Ja, sko, þeir segja þetta kannski svona en innst inni vilja þeir fara.“ Hann sagði þetta ekki með þessum orðum en þetta var það sem lá í orðunum. Ég man að hann kallaði þingmenn samstarfsflokksins þjóðernisvitleysinga ef mig misminnir ekki. Þetta var mjög smekklegt. Gott og vel. Þetta er sú meðferð sem Samfylkingin notar greinilega á sína samstarfsmenn. Ég verð eiginlega að segja það hér að ég er fegin því að Vinstri grænir en ekki við sjálfstæðismenn verða fyrir þeirri meðferð.

Það má ekki heyra á þessa tvöföldu atkvæðagreiðslu minnst. Það liggur svo mikið á. Það er svo mikill asi. Það hefur verið upplýst að það sé út af því að koma þarf umsókninni inn fyrir 27. júlí. Það má engan tíma missa. Það mátti ekki klára málið í utanríkismálanefnd og havaríið allt þegar þingfundi var frestað fram og til baka og tilkynnt um fundi sem voru svo aldrei boðaðir ber þess öll merki að málinu var ekki leyft að klárast. Af hverju ekki? Það er út af því að Svíarnir eru með formennsku og það þarf að koma þessu inn fyrir 27. júlí vegna þess — og þar kemur niðurlægingin algerlega fram — að þeir þora ekki að taka sénsinn á því að við komumst inn í Evrópusambandið nema í gegnum klíku hjá Svíunum. Það er öll sannfæringin. Þetta er hreint út sagt ömurlegt. Af hverju skyldi það nú vera? Það er vegna þess að Samfylkingin hefur ekki neitt plan B. Þetta er svo mikið lífsspursmál fyrir Samfylkinguna að það verður að reyna að fá frændur okkar Svía til að hjálpa okkur inn, leiða okkur inn eins og eitthvert ölmusufólk. Mér finnst það niðurlægjandi. Ég verð að segja það. Ég vil, ef við einhvern tíma ákveðum að taka þátt í þessu bandalagi, að við gerum það vegna þess að við teljum okkur eiga erindi þar inn, ekki vegna þess að einhver Svíi geti hjálpað okkur, með allri virðingu fyrir Svíum sem eru besta fólk. Tímasetningin er hreint ótrúleg. Að það liggi á að sækja um núna strax á meðan hinu stóra, risavaxna Icesave-máli er enn ólokið finnst mér líka hreint með ólíkindum. Að við klárum það ekki og það að við séum að eyða dýrmætum tíma núna í þetta mál á meðan því er enn ólokið finnst mér hreint með ólíkindum. Þetta er um málsmeðferðina sem ég vildi sagt hafa og ég get ekki látið hjá líða að ítreka það að áherslan á þetta núna er hreint út sagt ótrúleg.

Mig langar líka, frú forseti, að nota tíma minn hér aðeins til að fara yfir kostnaðinn við þetta allt saman, ekki við aðildina sjálfa heldur kostnaðinn við aðildarumsóknina. Fram kom í fréttum að grundvöllurinn að öllu havaríinu í utanríkismálanefnd var sá að hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur varð það á að óska eftir að fjármálaráðuneytið gæfi aðeins ítarlegri upplýsingar um kostnaðinn við allt þetta bix. Gleymum því ekki hvaða tíma við erum að lifa. Við erum að lifa tíma — ég ætla að setja þetta hérna aðeins í samhengi — við erum að lifa hérna tíma þar sem ríkisstjórnin, sú sama ríkisstjórn og er nú að fara að sækja um aðild að Evrópusambandinu, gengst fyrir vegna alvarlegrar stöðu ríkisfjármála miklum niðurskurði og skattahækkunum, niðurskurði í velferðarkerfinu, niðurskurði í heilbrigðis-, mennta- og félagskerfinu. Ég ætla að lesa aðeins úr skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum sem hann lagði fyrir um daginn og við ræddum í skýrsluformi. Með leyfi forseta, segir hér:

„Það er ásetningur stjórnvalda að þær aðhaldsaðgerðir og niðurskurður útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Jafnframt að grunnþjónusta á borð við starfsemi skóla verði varin. Til að svo geti orðið ber brýna nauðsyn til þess að það fé sem varið er til verkefna og þjónustu hins opinbera verði nýtt svo vel sem kostur er.“ — Ég ætla að fá að endurtaka þetta: — „… nýtt svo vel sem kostur er. Óhjákvæmilegt er að í því skyni verði fyrirkomulag og forgangsröðun í opinberum rekstri tekin til gaumgæfilegrar skoðunar. Nýta þarf öll færi til hagræðingar og nýsköpunar í ríkisrekstrinum.“

Þetta er sem sagt fjármálaráðherrann að setja ríkisfjármálin í samhengi.

Ég ætla líka, með leyfi forseta, að lesa upp úr grein í Morgunblaðinu frá því sunnudaginn 5. júlí síðastliðinn. Þar er talað um öryggi borgaranna og fámenni í lögreglunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar er lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) gert að skera niður um 130 milljónir á þessu ári og 320 á því næsta. Við því er lítið annað í boði en að lækka launakostnað, sem er um 80% af útgjöldunum.“

Ég held áfram í greininni. Þá er viðtal við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, og hann segir, með leyfi forseta:

„„Við óttumst því miður að ástandið sem var hér í febrúar endurtaki sig í einhverri mynd,“ segir Snorri. Í því samhengi má ekki gleyma óeirðakostnaði sem stjórnvöld hafa þurft að leggja til lögreglunnar á þessu ári. Við nýja uppreisnaröldu gæti hann slagað hátt í 200 milljónir.“

Áfram heldur greinin, með leyfi forseta:

„Þegar skera á niður um 320 milljónir á einu ári hjá einu lögregluembætti, LRH, hvernig á að forgangsraða? Hverju á lögreglan að sinna og hvenær er útkallið ekki á hennar verksviði?“

Þetta er það sem lögreglan er að velta fyrir sér þegar henni er gert að spara 320 millj. kr. á þessu ári. En hvað gerist þá? Þá leggur þessi sama ríkisstjórn fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Kostnaðarmatið fylgir sem fylgiskjal IV í greinargerð ríkisstjórnarinnar. Fylgiskjal IV er kostnaðarmat vegna aðildarviðræðna við ESB frá utanríkisráðuneytinu. Síðan er reyndar fylgiskjal V sem er yfirferð fjárlagaskrifstofu á kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar að ESB. Ég vil eiginlega leyfa mér að kalla það hirtingu fjármálaráðuneytisins á utanríkisráðuneytinu fyrir vanbúið kostnaðarmat vegna þess að það er alveg með ólíkindum að hér er ekkert fast í hendi. Jú, þeir tala um það í upphafi að óvissan sé mikil. Það er reyndar alveg rétt. En það er eins og menn séu ekki alveg að kveikja á þessu öllu saman. Í yfirferð fjármálaráðuneytisins segir að áætlaður þýðingarkostnaður sé á árunum 2009–2012 samtals 590 millj. kr., 300 millj. kr. eru kallaður annar kostnaður utanríkisráðuneytisins, 100 millj. kr. eru kostnaður hjá öðrum ráðuneytum. Þýðingarkostnaður er langstærsti hlutinn eða 590 millj. kr. Samtals eru þetta 990 millj. kr., næstum því 1.000 millj. kr. Ég minni bara á að lögreglunni var gert að skera niður um 320 millj. kr. á þessu ári. En þetta eru 990 millj. kr. á þessum fjórum árum.

Það vekur mikla eftirtekt hvað þarna er tekið til og hver óvissan er í matinu. Í fylgiskjali V segir, með leyfi forseta:

„Mat utanríkisráðuneytisins er því mjög gróft og með mjög miklum skekkjumörkum.“

Ég mundi segja að það væri síst nógu sterkt til orða tekið. Það segir hérna líka, með leyfi forseta:

„Það sem utanríkisráðuneytið fellir undir annan kostnað í sínu mati má segja að sé í rauninni beinn kostnaður vegna aðildarviðræðna við ESB. Helstu þættir sem eru taldir hafa áhrif á þennan kostnað eru; starfsmannakostnaður, ferðakostnaður, aðkeypt sérfræðiþjónusta (innlend og erlend) og tímalengd viðræðna.“

Allir aðalþættirnir í þessu máli eru þarna sem sagt sem annar kostnaður og eru ósundurliðaðir og talað er um að þetta sé allt með mjög miklum skekkjumörkum. Síðan — og það vekur mikla eftirtekt hjá mér — segir hér undir liðnum starfsmannakostnaður, með leyfi forseta:

„Til að mæta þessu gerir utanríkisráðuneytið ráð fyrir því að færa starfsfólk úr öðrum verkefnum en einnig að starfsfólk taki tímabundið á sig meira álag. Fyrirséð er dregið verður saman í vissum verkefnum t.d. vegna þróunaraðstoðar og að það ætti að gera utanríkisráðuneytinu kleift að færa mannskap yfir í aðildarviðræðurnar. Ekki liggur þó fyrir á þessu stigi hvernig ráðuneytið ætlar að gera þetta, þ.e. hvaða verkefni nákvæmlega verða lögð til hliðar til að manna aðildarviðræður.“

En bíðið nú við, átti ekki að gera þetta hvort sem er? Átti ekki hvort sem er að spara í þróunarkostnaði? Var það ekki bara út af því sem ég las upp áðan, almennri hagræðingu í ríkisrekstrinum vegna erfiðrar stöðu ríkisfjármála? Mig minnti það, virðulegur forseti, og það var þess vegna sem ég fór á netið, af því að mig minnti að það hefði jafnvel komið einhver tilkynning. Ó jú, hér er komin tilkynning sem ég fann á vef utanríkisráðuneytisins frá 19. júní. Hún er ekki orðin mánaðargömul, sú tilkynning. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á næsta ári sker utanríkisráðuneytið niður rekstrarútgjöld um 10% til viðbótar áður ákveðnum sparnaði. Einnig er tilkynnt um 190 millj. kr. viðbótarsparnað vegna yfirstandandi árs.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Einnig verða verulega dregin saman framlög til þróunarsamvinnu og friðargæslu á meðan Íslendingar ganga í gegnum efnahagslegar þrengingar en aukið verður við að nýju þegar efnahagslífið verður komið á réttan kjöl.“

Það var nefnilega það sem mig minnti. Þarna á að spara þennan kostnað margoft. Þetta er svona hókus pókus sparnaður. Það er búið að ákveða að spara og hagræða út af erfiðri stöðu ríkisfjármála en til þess að aðildarumsóknin kosti okkur nú ekki neitt þá á bara að færa til fólk, fólkið sem á að vera farið út úr ráðuneytinu samkvæmt fréttatilkynningunni væntanlega, þá á það allt í einu að fara að spara hér. Hvað rugl er þetta? Þetta er ekkert annað en einhver hókus pókus vinnubrögð og brellupólitík. Þetta er brellupólitík sem ég gef ekkert fyrir. (Gripið fram í.) Þetta er barbabrella, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Þetta er barbabrella og þetta eru fullkomlega óboðleg vinnubrögð. (PHB: Ef þetta væri það eina.) „Ef þetta væri það eina,“ kallar hér hv. þm. Pétur Blöndal. Ég ætla að halda áfram í kostnaðarmatinu vegna þess að þetta er nefnilega alveg stórkostleg lesning.

Hvað halda menn að þurfi að eyða í svona umsókn? Það er fullt af fólki sem þarf að ferðast. Það er fullt af fólki sem þarf að ráða til að koma með sérfræðimat af ýmsu tagi. (SDG: Borða snigla.) „Borða snigla“ og eitthvað, kallar formaður Framsóknarflokksins fram í. Það getur vel verið að það sé partur af þessu. Við vonum nú að vegna hagræðingar og sparnaðar og ráðdeildar sleppi þeir þeim máltíðum. En þó veit maður aldrei.

Hér stendur, með leyfi virðulegs forseta, um ferðakostnaðinn:

„Ekkert sérstakt mat á þessum kostnaðarlið liggur fyrir hjá utanríkisráðuneytinu miðað við fjölda ferða og má því reikna með miklum skekkjumörkum í þeim lið.“

Það held ég nú. Það er bara dálítið verið að skjóta á þetta. Þetta er nefnilega undir liðnum Annar kostnaður, sem er í heildina — hvað var það? — 300 milljónir á fjórum árum.

Allt í lagi, við skulum sjá hvernig sérfræðikostnaðinum reiðir af, með leyfi forseta:

„Ekkert sérstakt mat á þessum kostnaðarlið liggur fyrir hjá utanríkisráðuneytinu. Þessi kostnaðarliður getur orðið umtalsverður. Það er þó álitamál eftir því hversu víðtæk samningsmarkmiðin verða og hversu mikið bakland sérfræðinga talin verður þörf á. Mögulegt væri að sækja að einhverju leyti í reynslu og þekkingu hinna Norðurlandanna án mjög verulegs tilkostnaðar og hafa utanríkisráðuneytinu borist tilboð um slíka aðstoð.“

Ja, fínt, Svíarnir ætla aftur að redda okkur. Þeir ætla bara að gera þetta frítt og þá þurfum við ekkert að hafa neinar áhyggjur af því. Þarna er sem sagt ekkert sérstakt mat.

Tímalengdin, þar eru þeir að miða við að þetta taki 18 mánuði. Allt í lagi.

Síðan er þetta alveg stórkostlegt vegna þess að hér eru upplýsingar fyrir nánara kostnaðarmat. Þá er talað um að það sé mikil óvissa um hvað aðildarviðræðurnar gætu að lokum kostað. Það skyldi þó ekki vera?

Ég ætla að lesa hér upp heilan kafla vegna þess að ég get ekki umorðað þetta þannig að þetta hljómi eins dásamlega og þetta hljómar hér, með leyfi forseta:

„Einn helsti óvissuþátturinn er hvernig eigi að skipuleggja og nálgast aðildarviðræður. Ódýrasta nálgunin væri einföld umsókn þar sem ekki væri lögð mikil áhersla á samningsmarkmið og samningsviðræður.“ — Það væri ódýrasta nálgunin, dásamlegt. — „Hinn póllinn væri að farið væri í aðildarviðræður með mjög víðtæk samningsmarkmið þar sem fátt væri undanskilið og að þau væru undirbyggð með mjög mikilli sérfræðilegri greiningu, erlendri ráðgjöf og virku baklandi.“

Ég vona svo sannarlega að það sé sú umsókn sem við leggjum fram vegna þess að ég veit ekki betur en að í umræðunni hérna í dag hafi komið fram að það sé einmitt nákvæmlega það, þ.e. öll þessi skilyrði, öll ófrávíkjanlegu skilyrðin sem við áttum að setja til að geta stokkið út um leið — eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hérna í dag — ef við náum ekki markmiðum okkar í sjávarútvegsmálum því þá ætlum við bara að hætta og fara. Það hlýtur að þurfa að undirbyggja það með einhverjum hætti. Það hlýtur að þurfa að hafa mjög víðtæk samningsmarkmið þar sem fátt er undanskilið og að þau verði undirbyggð með mjög mikilli sérfræðilegri greiningu, erlendri ráðgjöf og virku baklandi. Ég bara rétt ætla að vona það þannig að það kostar svolítið.

Ég ætla að fá að halda áfram, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er að stórum hluta pólitísk álitamál hvar umfang aðildarviðræðna væri staðsett á þennan mælikvarða gagnvart kostnaðarmatinu.

Þannig að það er bara skilið eftir í einhverju tómarúmi.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Lausleg skoðun bendir til að kostnaðurinn gæti orðið umtalsvert meiri miðað við að meiri þungi verði lagður í viðræðurnar.“

Mér finnst þetta líka stórkostleg setning. Þetta er algjörlega stórkostlegt. Svo höldum við áfram, með leyfi forseta:

„Vegna þessara álitamála og óvissuþátta og þar sem afar lítil greining á hugsanlegri framkvæmd aðildarviðræðna hefur farið fram á þessu stigi hjá utanríkisráðuneytinu liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar til að hægt sé að setja fram viðhlítandi kostnaðarmat.“

Hér er ekkert „bottom line“ eins það heitir á góðri útlensku.

Vegna þess að talað var um að þessi annar kostnaður væri ferðakostnaður, starfsmannakostnaður og allt þetta þá segir hér svona til þess að klára hringinn, með leyfi forseta:

„Til þess þyrfti að fá frekari svör um m.a. eftirfarandi atriði:“

Og þá eru listaðir fjórir punktar og hverjir eru þeir? Starfsmannakostnaður, ferðakostnaður, aðkeypt sérfræðiþjónusta og reynsla annarra þjóða.

Punkturinn er því sá að það mat sem hér er lagt til grundvallar er þó upp á 990 milljónir. Við erum ekkert að gera lítið úr þeim kostnaði. Mér finnst hann alveg nægur, en niðurstaðan af þessu, og því hef ég fært hér rök fyrir, er að þessar 990 milljónir eru skot í algjörri blindni. Það er algjörlega verið að skjóta út í loftið á eitthvað sem er fullkomlega vanmetið og við getum algjörlega verið viss um að þetta fer langt fram úr þessari áætlun. Það eina sem ekki er óvissa um í þessu kostnaðarmati er að það mun margfaldast í meðferð þessa máls. Og þegar við erum komin af stað er ekkert hægt að stoppa og segja: „Heyrðu, þetta er orðið svo dýrt. Nú skulum við taka ódýru nálgunina á þetta.“ Það er ekkert hægt. Þess vegna er algjörlega óásættanlegt að þingið sé beðið um að heimila þessu sama fólki í utanríkisráðuneytinu að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að þessi kostnaður sé betur skilgreindur. Ég segi bara: Sendum þetta fólk heim og biðjum það að gjöra svo vel að meta þetta.

Hér segir að það þurfi að kanna umfang og kostnað við aðildarumsóknir annarra þjóða. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að gera það? Það er grundvallarforsenda fyrir þessu. Þessi hókus pókus sparnaður hjá utanríkisráðuneytinu sem ég nefndi hérna áðan er eitt atriðið. Ég ætla bara í tölum að nefna það að fyrir árið 2009 á að skera niður í utanríkisráðuneytinu um 80 milljónir, fyrir 2010 á að skera niður um 648 milljónir. Það á að skera niður í utanríkisráðuneytinu um 648 milljónir en svo á að fara að bæta árið 2010 200 milljónum plús 180 milljónum í þýðingarkostnað, sem kemur væntanlega inn í ráðuneytið líka. Þetta er því allt saman komið á hvolf og er fullkomlega óboðlegt.

Áfram með niðurskurðartölurnar. Setjum þetta allt í samhengi. Við erum að tala um 990 milljónir á fjórum árum. Við skulum sjá, fyrirhugaður niðurskurður í ríkisútgjöldum eftir ráðuneytum. Eigum við að grípa niður til dæmis niður í heilbrigðisráðuneytið? Bara frá 1. júlí 2009 á að skera niður um 250 milljónir, í félags- og tryggingamálaráðuneytinu um 130 milljónir á þessu ári, 881 milljón á næsta ári í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Þá rak ég nefnilega augun hér í viðtal við hæstv. félagsmálaráðherra, sem er jú einn helsti talsmaður þess að við förum í þessar viðræður. Hann segir í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 10. júlí, í dag, með leyfi forseta:

„Hann segir búið að finna leiðir til að mæta þeim 130 milljónum sem ráðuneytinu er gert að spara í rekstri seinni hluta þessa árs, án þess að það komi niður á þjónustu.“

Hér er haft eftir honum beint, með leyfi forseta:

„„Tæplega milljarðs niðurskurður rekstrargjalda á næsta ári er hins vegar ómögulegur án þess að skerða þjónustuna að einhverju leyti. Ég hef lagt á að það áherslu að þjónusta við fatlað fólk sé ekki skert nema það sé sýnt gífurlegt aðhald í öðrum ríkisrekstri á móti,“ segir Árni Páll og bendir á að sá rammi sem lagður var upp með, að velferðarstofnanir skæru niður um 5% virðist ekki hafa skilað sér.“

Ég ætla að fá að endurtaka það sem hæstv. ráðherra segir hér, með leyfi forseta:

„Ég hef lagt á að það áherslu að þjónusta við fatlað fólk sé ekki skert nema það sé sýnt gífurlegt aðhald í öðrum ríkisrekstri á móti.“

990 milljónir, og ég endurtek að það er stórkostlega vanáætlað. Ég get ekki litið svo á að það sé gífurlegt aðhald í öðrum ríkisrekstri á móti þannig að hvað segir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þegar þetta er sett í samhengi? Hvar ætlar hann að skera niður á móti? Meira í sínu ráðuneyti? Einhvers staðar þurfa peningarnir að koma. Ég las áðan úr skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og ég ætla að endurtaka það líka hér. Þar er verið að tala um niðurskurðinn, með leyfi forseta:

„Til að svo geti orðið ber brýna nauðsyn til þess að það fé sem varið er til verkefna og þjónustu hins opinbera verði nýtt svo vel sem kostur er.“

Þetta, virðulegur forseti, kemur frá sömu ríkisstjórn, frá ráðherra í sömu ríkisstjórn sem veigrar sér ekki við því að leggja hátt í 1.000 milljónir í aðildarumsókn, bara umsóknina. (PHB: Og ætlar ekki að ganga inn.) Gerum okkur grein fyrir því. Ég vona bara að hv. þm. Pétur Blöndal taki — vegna þess að tími minn fer bráðum að renna hér á enda — taki fyrir kostnaðinn við inngönguna sem samkvæmt Evrópuskýrslunni síðan 2007 var um það bil 14–20 milljarðar — ég man nú ekki töluna en það er eitthvað á þeim skala — á ári.

Við skulum ekki gleyma því að þetta mál er dýrt og þetta mál er þannig að það þarf að vanda til þess og það erum við sjálfstæðismenn segja, ef við ætlum að sækja um í Evrópusambandinu þá þurfa allar þessar staðreyndir að liggja fyrir. Og þetta eru enn ein rökin fyrir tvöfaldri atkvæðagreiðslu og því að leyfa þjóðinni að ráða vegna þess að við getum sagt við þjóðina — spurt er hvaða forsendur þjóðin hafi til að meta hvort við eigum að fara í viðræður eða ekki — en við getum spurt þjóðina hvort hún sé tilbúin til að leggja þúsund milljónir samkvæmt þessu plani — ég leyfi mér að segja tvö þúsund milljónir — í það á næstu fjórum árum á meðan við verðum í dýpstu kreppunni, hvort hún sé tilbúin til að gera það og þurfa að skera niður þjónustu við fatlað fólk á sama tíma. Þetta er spurning sem ég treysti þjóðinni algjörlega fullkomlega til þess að svara. Þessu getum við ekki horft fram hjá í þessu samhengi. Það þarf að leggja á þetta áherslu því þetta er illa unnið.

Ég vek athygli líka á því varðandi þessa yfirferð mína að nefndin hefur unnið þetta í mánuð og talað er um að haldnir hafi verið 20 fundir og að fjöldi gesta hafi komið. Hvenær kemur þetta smámál sem kostnaðurinn er inn í nefndina? Hvenær er yfirferð fjárlagaskrifstofunnar dagsett? 8. júlí 2009. Í dag er 10. júlí. Þetta kostnaðarmat er síðan 8. júlí og málið var afgreitt út í gær. Hver er umsögn og hver er meðferð nefndarinnar? Hver er gagnrýnin hugsun nefndarmanna sem skoðuðu þetta kostnaðarmat? Með allri virðingu fyrir því góða fólki sem situr í utanríkismálanefnd þá leyfi ég mér að efast um að nokkur umræða hafi farið fram um það vegna þess að það hefur líka komið fram í fjölmiðlum að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir bað um þetta mat á fundinum þegar allt varð vitlaust og eftir því sem mér skilst þá hafa ekki verið miklar efnislegar umræður í nefndinni síðan þá. Ég bið fólk sem betur veit um að leiðrétta mig ef svo er ekki. En ég leyfi mér að halda því fram, virðulegur forseti, að þetta sé óboðlegt. Og þó að það væri ekki nema fyrir þessa ástæðu eina þá segi ég að þinginu beri hreinlega skylda til þess að leyfa íslensku þjóðinni að velja um það hvort hún vilji fara þessa leið eða ekki. Það kemur ekkert annað til greina. Þetta kostnaðarmat upp á 990 milljónir er í besta falli óskhyggja. En ég vil frekar kalla það hókus pókus kostnaðarmat og brellupólitík sem er aðeins sett hér fram til þess að villa um fyrir fólki. Þá er ég ekki að álasa starfsmönnum utanríkisráðuneytisins heldur átel ég þá pólitík sem ríkisstjórnin beitir í þessu máli.

Virðulegur forseti. Nú er ég að renna út á tíma og ég var rétt að byrja. Ég segi bara að sem betur fer var ræðutíminn tvöfaldaður vegna þess að mér er mikið niðri fyrir. Ég átti eftir að ræða um sjávarútvegsmálin. Ég átti eftir að ræða um hvað ég óttaðist í sambandi við það að senda fólk út í heim til að semja, fólk sem hefur einhvern veginn alltaf það að markmiði að ná samningum hvað sem það kosti. Ég óttast það. Ég óttast að það sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um hérna, að við mundum snúa við um leið og við sæjum að við næðum ekki okkar markmiðum, þ.e. ég óttast að það verði ekki þannig. Ég óttast varðandi öll þessi fögru fyrirheit um að koma með allar upplýsingar fyrir þingið, að það verði bara ekkert þannig.

Ég óttast að við stöndum frami fyrir því einn góðan veðurdag að hérna verði kominn samningur. Ég ætla ekki að líkja honum endilega við Icesave-samninginn. En það verður á sama grunni reynt að selja íslensku þjóðinni þann samning eins og verið er verið að segja núna: „Þetta er besti hugsanlegi samningurinn sem við getum fengið. Hann er ekki gallalaus. Við reyndar missum yfirráðin yfir fiskveiðistjórninni. En ég meina, það er bara sumt sem maður þarf að gefa eftir.“ Og íslenska þjóðin verður látin kjósa um þetta og ég treysti íslensku þjóðinni til þess að taka réttar ákvarðanir. En ég óttast þetta verði ferlið. Mér finnst sorglegt til þess að hugsa, virðulegur forseti, ef við getum ekki — ég er sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni því að ég hef trú á því að meiri hluti þingsins hafi sannfæringu fyrir tvöfaldri atkvæðagreiðslu. Ég heiti á þingmenn að greiða atkvæði samkvæmt bestu sannfæringu sinni vegna þess að mikið er í húfi og við þurfum að skoða þetta betur. (Forseti hringir.) Það þarf að skoða kostnaðinn. Þetta mál er ekki tækt til þess að hleypa því svona eins og ríkisstjórnin leggur til.