137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir velti því fyrir sér hversu mikla umræðu greining á kostnaðarmati hefði fengið í utanríkismálanefnd. Því er fljótsvarað. Málið var hreinlega alls ekki rætt í utanríkismálanefnd. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ítrekaði fyrri beiðni sína, beiðni sem hún lagði fram strax við upphaf umræðu um málið um kostnaðarmat. Sagan af því hvað fylgdi í kjölfarið er alþekkt. Svo var kallaður saman fundur morguninn eftir, eftir að fundarfall varð vegna þess að hv. þingmaður bar fram þessa sakleysislegu beiðni og tilkynnt að kostnaðarmat sé komið og sagt: Skilum ályktun út úr nefndinni. Engin umræða. Svoleiðis var nú það.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur greinilega unnið heimavinnuna sína. Hún rakti mjög áhugaverðar upplýsingar um kostnaðarmatið, mjög mikilvæga og ítarlega greiningu á því og gagnrýni, og ég held að það sé alveg óhætt að segja að þetta sé varlega áætlað, ég held að það sé ekki ofsögum sagt. Hvernig var með kostnaðarmatið varðandi umsóknina um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hversu mikið fór það fram úr áætlun, hversu mörg hundruð prósent? Ég er dálítið hræddur um að það sama eigi við hér. En hér kemur hv. þingmaður með þessa fínu greiningu klukkan langt gengin í 12 á miðnætti á föstudagskvöldi og það er enginn til að svara fyrir þetta. Hér er enginn stjórnarliði sem ætlar að reyna að bera í bætifláka fyrir þetta mat eða reyna að útskýra fyrir okkur hvort eitthvað hafi verið rangt í þessu mati. Hvers lags eiginlega umræða er þetta um mál sem er líklega það mikilvægasta sem þingið hefur nokkru sinni rætt? Og hvaða rök eru fyrir því að halda þinginu fram að miðnætti þegar enginn er til að svara fyrir svona grundvallarupplýsingar?