137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er mjög kurteis þegar hún bendir á að hæstv. fjármálaráðherra ætli sér einmitt ekki að nota þessa vinnu sem verður svona dýr á nokkurn hátt. Þvert á móti, hann ætlar að beita sér fyrir því að þessi vinna verði öll til einskis, að hún fari í ruslið. Þetta er náttúrlega algerlega galið. Annar stjórnarflokkanna talar þannig að þessi vinna verði að eiga sér stað til þess að við getum náð þeim áfanga að þessir sömu þingmenn geti beitt sér fyrir því að hún fari ekki í ruslið. Hvers lags nálgun er þetta eiginlega í þessu stóra máli? Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að þetta nái ekki nokkurri einustu átt?