137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Hún var athyglisverð. Hún fjallaði kannski minnst um tillöguna sem hér liggur fyrir heldur var hún auðvitað fyrst og fremst trúarjátning hv. þingmanns um Evrópusambandið og er vandséð að samningaviðræður geti leitt til nokkurrar þeirra niðurstöðu sem hv. þm. Helgi Hjörvar gæti ekki fallist á vegna þess að meginniðurstaðan og meginþemað í ræðu hans var það að ESB leysti allan vanda.

Ég ætla ekki að fjalla nánar um það, heldur ekki þó að ég reyndar verði að taka undir þann óð til gleðinnar sem varðaði viðskiptafrelsi sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ég skil svo að hafi verið sérstök skilaboð til samstarfsflokks hans í ríkisstjórn. Ég get tekið undir mjög margt sem hann sagði í því sambandi.

En ef við bara veltum fyrir okkur því máli sem hér liggur fyrir og geymum okkur skylmingar um Evrópusambandsaðildina sem slíka, sem er umræða sem við fáum áreiðanlega tækifæri til þess að fara yfir síðar, þá velti ég fyrir mér af því að hv. þingmaður hefur komið mjög að þessu máli hvort hann geti hugsanlega frætt mig um atriði sem mér fannst nokkuð óljóst eftir umræðu hér í gær. Það er spurningin um hvaða stöðu meiri hluti utanríkismálanefndar sér fyrir sér ef svo virðist í samningaviðræðum að þær leiði ekki til ásættanlegrar niðurstöðu miðað við þá forskrift sem gefin er í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Öðrum þræði er talað um að þetta mál verði að leiða til lykta endanlega með þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Hvað gerist hins vegar ef samningaviðræður virðast ekki ætla að leiða til ásættanlegrar niðurstöðu miðað við fyrir fram gefna forskrift?