137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að spurningin sem ég spurði er nokkurs konar „hvað ef“-spurning og segja má að allt þetta mál sé s „hvað ef“-mál vegna þess að við erum að fjalla um framtíðina og við erum að fjalla um óvissa framtíð. Áður en við leggjum af stað í leiðangurinn, svo ég noti nú orðalag hv. þingmanns, sem var á þann veg að hér væri um leiðangur að ræða, þá er rétt að menn átti sig á því og hugi að því hvernig brugðist verði við undir þeim kringumstæðum sem ég nefndi. Meiri hluti utanríkismálanefndar telur mjög mikilvægt við afgreiðslu málsins frá nefndinni að setja fram, við getum kallað það skilyrði, við getum kallað það markmið — við getum valið hvaða orð sem við viljum — en það er auðvitað meginþemað í áliti utanríkismálanefndar, þ.e. meginniðurstaða utanríkismálanefndar er að breyta tillögu utanríkisráðherra þannig að ekki sé um að ræða fullkomlega opna heimild heldur að setja henni nokkrar skorður. Þá er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvað gerist. Hvað ef menn átta sig á því á miðri leið að þessi markmið náist ekki? Ætla þeir engu að síður að klára samningagerð og undirrita samninga til þess að geta fullnægt því háleita markmiði að láta þjóðina eiga endanlegt val í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ég spurði hv. utanríkisráðherra að þessu í gær og mér heyrðist hv. utanríkisráðherra bara ekki hafa hugsað þennan möguleika. (Gripið fram í.) Honum fannst það svo til óhugsandi að sú staða gæti komið upp að ekki næðist ásættanleg niðurstaða eftir því sem ég skildi hann rétt. En ég velti því fyrir mér hvernig hv. þm. Helgi Hjörvar sem þekkir vel til þessara mála telji að við ætti að bregðast.