137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að í nefndaráliti okkar í meiri hluta utanríkismálanefndar er farið býsna ítarlega yfir ýmis samningsmarkmið, samningsmarkmið, auðvitað ekki skilyrði. Enda er það ástæðan fyrir því að hv. formaður Framsóknarflokksins, að sögn, treysti sér ekki til þess að vera með á álitinu því að það er auðvitað sett fram sem samningsmarkmið en ekki sem skilyrði. Það er ástæða þess að gert er ráð fyrir svo nánu samráði við Alþingi í ferlinu sem raun ber vitni í álitinu og þeim tillögum sem hæstv. utanríkisráðherra lagði upp með, að í þeim viðræðum geta komið upp ýmis álitamál. Þar getur skapast vandi í viðræðunum eins og alla jafna þegar um jafngríðarlega umfangsmikla hagsmuni er að ræða. Þess vegna höfum við ekki svarað slíkum „hvað ef“-spurningum fyrir fram enda kann það ekki góðri lukku að stýra í utanríkismálum frekar en einkamálum.

Þess vegna er einfaldlega sett upp fyrirkomulag til þess að tryggja að þingið, einkum í gegnum utanríkismálanefnd, hafi býsna góð tæki til þess að fylgjast með framgangi viðræðnanna og bregðast við þeim álitaefnum sem upp kunna að koma í þeim.