137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns var stöðluð ræða hv. samfylkingarmanns. Hún byrjaði á að fjalla um kostina við evruna. Hún byrjaði svo að ræða um áhrifin sem 300 þúsund manna þjóð hefði á þetta mikla batterí og svo voru útmáluð þau ósköp sem gerðust ef við gengjum ekki þarna inn. Það var sem sagt verið að lofa og hóta. Þetta var stöðluð ræða og þannig eru þær allar.

Ég skil ekkert í hv. formanni efnahags- og skattanefndar að tala um evruna þegar hann veit að við tökum hana í fyrsta lagi upp eftir fjögur ár. Fjármálaráðuneytið segir 30 ár. Ég segi sjö, átta ár. Það er engin lausn að ganga í Evrópusambandið varðandi það sem hv. þingmaður segir með lága vexti og svo framvegis. Vextir eru ekkert annað en það sem menn borga fyrir fjármagn. Einn fær vexti og annar borgar vexti. Ef of fáir spara eins og er á Íslandi þá eru vextir háir nema þá að menn fari að flytja inn evrur í stórum stíl og mynda skuldsetningu hjá þjóðinni. Þannig mundu lágir vextir virka á Íslandi. Ég bara frábið mér það að menn séu að tala um það sem einhverja lausn á vanda Íslendinga núna, sem stendur kannski yfir í tvö, þrjú ár, að ræða um þetta.

Svo um áhrifin. Ég minni á það að fallið í haust var vegna gallaðra reglna Evrópusambandsins og vegna hótana þessa sama sambands og vegna hótana þess inni í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hv. þingmaður er virkilega að leggja til að Íslendingar gangi inn í þann klúbb sem er búinn að meðhöndla þjóðina þannig af skilningsleysi og áhugaleysi og bara hreinlega af græðgi — að láta okkur borga eitthvað sem við eigum ekki að borga. Mikið af þessum vanda er vegna þess að ráðherra Samfylkingarinnar, hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra þá (Forseti hringir.) gekk til viðræðna með þá vissu sannfæringu að við ættum að borga.