137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú kemur hv. þingmaður mér á óvart og er í algerri mótsögn við alla sína orðræðu í þessum umræðum, en ég hef fylgst ágætlega vel með innleggi hv. þingmanns í hana. Hann hefur hér aftur og aftur komið og kallað eftir því að menn ættu að fjalla um þetta mál til margra alda, um þær hugsjónir sem hér væru undir, en að þessi umræða snerist bara um einhverja skammtímahagsmuni og núið.

Ég reyndi einmitt að verða við þeim óskum um að fjalla um þær hugsjónir sem að baki byggju og langtímahagsmuni. En þá kemur hv. þingmaður hér upp og kallar um það að við verðum ekki búin að taka upp evruna að hans áliti fyrr en eftir sjö til átta ár og þess vegna tjói ekkert að tala um evruna í þessum samningi. En við, hv. þingmaður, erum hér að tala um langtímahagsmuni þjóðarinnar til áratuga og alda og gjaldmiðillinn skiptir máli í því samhengi. Ég ætla ekki að rengja þingmanninn um að það geti tekið sjö til átta ár að taka upp evruna. Við værum þá búin að taka hana upp ef það hefði verið hafinn sá leiðangur þegar við í Samfylkingunni lögðum hann til og við hefðum haft hana hér síðasta haust í okkar erfiðleikum og styrkinn af Evrópska seðlabankanum.

Það er auðvitað vont að það skyldi ekki vera gert strax þegar við lögðum það til. En það er skárra en ekkert að gera það núna því að það hefur áhrif á langtímahagsmuni okkar um áratugaskeið. Þingmaðurinn veit að í millibilsástandinu, þessi sjö, átta ár, þá getur Evrópusambandið hjálpað okkur við að halda utan um íslensku krónuna í einhvers konar EMR I eða III eða hvað við viljum kalla það og stutt einhver vikmörk á krónunni sem gæti gert það að verkum að við gætum fallið frá þeim gjaldeyrishöftum sem ég veit að eru eitur í beinum hv. þingmanns rétt eins og mínum, enda veit hann eins og ég að þau skaða (Forseti hringir.) íslenskan efnahag á hverri klukkustund sem þau gilda.