137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig stendur á því að við erum hér á laugardegi, sumardegi að ræða þetta mál? Hvernig stendur á því ef það er svo mikið langtímamál? Af hverju getum við ekki rætt það í haust eða í vetur eða þegar við erum búin að leysa vanda heimilanna og fjölskyldnanna sem brýnt er að leysa en ekki er gert? Hvernig stendur á því? Það er vegna þess að einhver Svíi, einhver persóna, veitir einhverju forstöðu. Það liggja sem sagt einhver reiðinnar ósköp á af því að menn ætla að nýta sér einhverja persónulega klíku. Það þýðir að Evrópusambandið er ekkert lýðræðislegt. Það er ekki sama hver er formaður þar.

Menn keyra þetta áfram núna til að nota núverandi stöðu, til þess að nota það að þjóðin er að leita að skammtímalausn. Það er ekkert annað á bak við þetta. Ef ekki væri þessi vandi sem Evrópusambandið skapaði á Íslandi með röngum reglum og með offorsi og með því að ráðast á Íslendinga út af Icesave-málinu og vegna linkindar íslenskra ráðamanna á þeim tíma — maður spurði sig stöðugt: Í hvaða liði var hæstv. viðskiptaráðherra á þeim tíma, sérstaklega hvað varðar yfirlýsingar hans í Morgunblaðinu 13. október?

Þetta allt saman gerir það að verkum að menn nota sér það núna á laugardegi að keyra málið í gegn til þess að nýta sér það að mikil vandræði eru á Íslandi. Eftir þrjú, fjögur ár þegar þjóðin er komin út úr þeim dal sem hún er í hafa menn ekki lengur áhuga á að ræða þetta. Ég fullyrði það. Þá hafa menn ekki lengur áhuga á að ræða þetta þegar við erum búin að bjarga efnahagnum upp úr þessum öldudal.

Þess vegna er Samfylkingin núna að keyra á þetta mál á laugardegi, þ.e. til þess að nýta sér stöðuna, kreppuna, og lofa og lofa annars vegar og hóta og hóta hins vegar ef menn skyldu nú ekki fallast á tillögu þeirra.