137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú býsna ósanngjörn lýsing hjá hv. þingmanni. Þingmaðurinn veit sem er að við erum hér komnir, alþingismenn Íslands, á sumarþing til þess að hlaða þær vörður sem þarf að hlaða í landi þar sem efnahagurinn hefur hrunið, sem fela í sér trúverðuga efnahagsstefnu, áætlun um endurreisn landsins og langtímastefnu sem skapað getur tiltrú í alþjóðasamfélaginu. Það gerum við með því að taka af festu á ríkisfjármálunum. Það gerum við með því að endurreisa bankakerfið í landinu og það gerum við með því að leggja af stað í þennan leiðangur (Gripið fram í.) og með því að efla gjaldeyrisforðann sem við þurfum til skamms tíma og ýmsum öðrum þeim ráðstöfunum sem við grípum til á þessu sumarþingi. Það er eðlilegt að við þurfum að taka til þess laugardag eins og nú. Það er eðlilegt að við getum þurft að taka til þess allt sumarið og þinga hér allan júlímánuð og allan ágústmánuð og allan septembermánuð. Okkur er engin vorkunn að því, síst mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem stóðum hér vaktina í október og berum þess vegna auðvitað gríðarlega mikla ábyrgð.

Það sem skiptir máli er ekki hvernig hægt sé að redda þessu núna á tveimur til þremur árum því að það er mikið óraunsæi hjá hv. þingmanni að halda að við getum reddað efnahagsvandanum (Gripið fram í.) hér á tveimur til þremur árum. Við þurfum að skapa hér aðstæður til langtíma, til áratuga, almenn skilyrði fyrir íslenskt atvinnulíf og framtíðarsýn sem gerir það að verkum að það sé eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að starfa hér. Til þess verðum við að skapa stöðugleika, þann stöðugleika sem íslenska myntsamfélagið hefur aldrei getað boðið atvinnulífinu.