137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið ítrekað í máli hv. þingmanna er hér um að ræða eitt af þeim stærstu málum sem hafa komið fyrir Alþingi til ákvörðunar og ekki óeðlilegt að það muni taka nokkurn tíma að fara í gegnum öll þau sjónarmið sem þarf að líta til. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þakkir til hv. formanns utanríkismálanefndar fyrir hans vinnu. Vinnan í nefndinni hefur gengið vel. Sjálfur sat ég nokkra fundi nefndarinnar og varð ekki var við neitt annað en að þar væri vel haldið á málum og allt gert til að vinna þetta mál þannig að Alþingi gæti síðan tekið nokkuð góða afstöðu til þess máls á þeim gögnum sem þar hafa verið unnin.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef skýrt frá þeirri skoðun opinberlega að fyrr eða síðar hlyti svo að fara að Ísland sækti um aðild að ESB. Ég hef byggt þá skoðun mína á tvennu. Annars vegar er það svo að okkur hefur gengið alveg frámunalega illa að stjórna peningamálum þjóðarinnar. Ég hef um langa hríð verið afskaplega ósáttur við það hvernig Seðlabanki Íslands rak sína peningamálastefnu og á sama tíma tel ég að hið opinbera, ríkið og sveitarfélögin, hafi ekki stutt þó þá viðleitni sem kannski var innan Seðlabankans til að ná þeim árangri sem stefnt var að. Þetta segi ég svona vegna þess að stundum efaðist maður um að Seðlabankanum væri sjálfrátt með þessa hluti af því að í grunninn var jú stefna Seðlabankans sú að Ísland tæki lán í útlöndum til að styrkja gengi krónunnar til að halda niðri verðbólgu. Með öðrum orðum, að taka lán í útlöndum til að halda niðri verðbólgu. Mér og mörgum öðrum þótti það algjörlega einsýnt að slík peningamálastjórn gæti aldrei staðist. En hið opinbera hjálpaði ekki heldur til. Útgjöld hins opinbera jukust alveg gríðarlega á síðustu árum til margra þeirra málaflokka sem okkur eru afskaplega kærir, velferðarmála, heilbrigðismála, samgöngumála, menntamála og allra þessara hluta sem við erum svo sammála um að þurfi að gera. En samanlögð áhrif þessa, samanlögð útgjaldaáhrifin voru til þess að auka allt spennustig. Með þessu var grafið undan íslensku krónunni og síðan þegar hið skelfilega hrun varð hér í haust tók steininn úr. Uppi geta menn haft rökstuddar efasemdir um það hvort möguleiki sé að koma íslensku krónunni aftur á koppinn. Ég reyndar er þeirrar skoðunar að hægt sé að sjá fyrir sér sambland hagstjórnar og peningamálastjórnar þannig að menn geti náð krónunni eðlilegri. Það er mjög erfitt og ég hef ekki enn þá séð neina greiningu frá Seðlabanka, ríkisstjórn eða neinum öðrum slíkum aðila um það hvernig ný peningamálastefna og samspil hennar við opinber fjármál ættu að virka til að hægt væri að gera það. Með hverjum deginum sem líður flækjumst við lengra og dýpra inn í haftakerfið með íslensku krónuna og það verður alltaf lengra til lands, til baka.

Þetta sjónarmið hefur aðallega ráðið því að ég hef velt fyrir mér hvaða leiðir standi okkur Íslendingum opnar og séu mögulegar hvað varðar okkar myntmál. Ein leið er sú að taka upp einhliða gjaldmiðil. Ég er þeirrar skoðunar og hef lýst henni að ég tel að það sé mjög torsótt að taka evru upp einhliða í ósátt við ESB. Pólitískar afleiðingar þess gætu orðið afskaplega slæmar. Þær mundu hafa áhrif á samstarf okkar innan EES og þar með raunverulega loka þeirri leið. Hin leiðin væri sú að taka upp dollar og í sjálfu sér er alveg ástæða fyrir okkur til að íhuga það mjög vel og mjög vandlega. Ég mun síðar í ræðu minni koma aftur að því sem snýr að evrunni.

Hitt atriðið sem hefur fengið mig til að komast að þeirri niðurstöðu að fyrr eða síðar yrði að sækja um aðild að ESB er það að við þurfum að ná einhvers konar botni í þetta mál. Það þarf að gerast að þjóðin taki afstöðu til málsins, að við sjáum nákvæmlega hvað slíkur aðildarsamningur hefur í för með sér og síðan væri hægt að taka afstöðu til þess samnings. Ég hef á hinn bóginn lengi vel verið í hópi þeirra sem hafa miklar efasemdir um að hægt sé að ná samningi við ESB sem sé þannig vaxinn að nokkrar minnstu líkur væru á því að íslenska þjóðin mundi segja já við slíkum samningi. Ég hef miklar efasemdir um það vegna þess að þeir hagsmunir sem undir liggja hjá okkur, sérstaklega í sjávarútvegsmálum, líka í landbúnaðarmálum og á ýmsum öðrum sviðum, eru bara þannig vaxnir að það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að menn samþykki þær breytingar sem óumflýjanlegar eru og sem mundu fylgja því að við gengjum í ESB. Stundum er þannig talað að af því að við Íslendingar séum svo klókir samningamenn, við séum svo fylgin okkur og svo framvegis þá hljótum við einhvern veginn að geta samið okkur í gegnum þetta allt saman. En það er mikill munur á til dæmis EES-samningnum og því samningaferli sem lá þar að baki og síðan því að sækja um aðild að ESB. Þar er nefnilega allur munurinn á. Annars vegar var samningur og hins vegar er umsókn um aðild. Aðildarumsókn snýst einmitt um að fá að ganga í klúbbinn. Það er ekki umsókn um að fá að breyta öllum reglum klúbbsins. Ég vara því við því að stjórnmálamenn tali héðan úr þessum ræðustól og annars staðar þannig að íslenska þjóðin geti vænst þess að það verði einhverjar stórfelldar breytingar gerðar á löggjöf og lagaramma ESB til þess að auðvelda okkur inngöngu. Ég vara við því að búa til slíkar falsvæntingar.

Þá kemur að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að sá aðdragandi og sá málatilbúnaður sem hér er hafður vegna mögulegrar aðildarumsóknar sé ekki þannig vaxinn að hægt sé að segja já við þessari tillögu eða styðja hana. Hvers vegna er það? Í fyrsta lagi er augljóst að ríkisstjórnin er klofin í þessu máli. Enginn reynir einu sinni að draga dul á það. Stjórnarliðar sjálfir játa það og viðurkenna, reyna auðvitað að fegra eins og þeir geta. (Gripið fram í.) En það er augljóst að þessi ríkisstjórn er klofin og alveg niður í rót. Ég tel afskaplega óheppilegt við slíkar aðstæður, að ríkisstjórn sem á greinilega svo óskaplega erfitt með að koma sér saman um þetta mál, sé í forustu fyrir því að fara í þessar samningaviðræður þegar jafnólík sjónarmið liggja að baki og hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra annars vegar og hins vegar í máli hæstv. fjármálaráðherra. Þetta eru algjörlega pólarnir í umræðunni. Þess vegna tel ég eðlilegt, og ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt, að leita víðtækara umboðs, að þjóðin verði spurð hvort hún vilji fara í þessa vegferð og þar með er komin upp allt önnur staða. Þar með er komin upp allt önnur staða fyrir ríkisstjórnina til að fylgja eftir þessu máli.

Það hefur líka komið fram í umræðunni, og verið mjög athyglisvert, meðal annars í svari hæstv. fjármálaráðherra við andsvari mínu við ræðu hans í gær þar sem hæstv. ráðherra sagði aðspurður að ef í það stefndi að þeir samningar sem unnið væri með væru einfaldlega ekki nógu góðir fyrir þjóðina, að þeir fullnægðu ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar, þá væri sjálfhætt, menn kæmu ekki heim með samning sem væri þannig að hann væri að mati þá væntanlega hæstv. fjármálaráðherra ekki nægilega góður. Hinum megin við það sama borð og þeir sitja sem eiga að taka ákvörðun um það hvort halda eigi áfram samningaviðræðunum mun — haldi þessi ríkisstjórn áfram að sitja — situr hæstv. utanríkisráðherra sem virðist hafa allt aðrar skoðanir á því hvaða svigrúm og við hvað hægt sé að lifa þegar kemur að regluverki ESB. Sérstaklega rekur mig minni til ágætra ummæla hæstv. utanríkisráðherra um sjávarútvegsmál og möguleika Íslendinga til að búa við það kerfi. Ríkisstjórnin ætlar því að fara í þessa vegferð klofin niður í rót, hafandi lýst því yfir meðal annars hæstv. fjármálaráðherra að samningaviðræðum verði hætt ef þannig horfir fram að það sé ekki hægt að ná fram markmiðunum og það er fullkominn klofningur í ríkisstjórninni um það hvernig muni á það eiga að horfa.

Í öðru lagi er það þannig að þegar þessir flokkar sem nú mynda ríkisstjórnina gengu til kosninga þá var annar flokkurinn mjög ákveðinn í því að það ætti að sækja um aðild að ESB og er þá vægt til orða tekið en hinn flokkurinn var mjög ákveðinn í því að það ætti ekki að sækja um aðild að ESB og er þá aftur nokkuð vægt til orða tekið. Ekki er hægt að halda því fram að niðurstaða þessara kosninga hafi með nokkru móti gefið til kynna að það ætti að sækja um aðild þegar menn líta á samsetningu ríkisstjórnarinnar. Á móti kemur að Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin höfðu léð máls á slíku, Framsóknarflokkurinn reyndar með gífurlega ströngum skilyrðum sem má líkja við það að hugmyndin gengi út á það að Evrópusambandið gengi í Ísland en ekki öfugt. En gott og vel, menn voru þó skýrir í sinni afstöðu. En þeir tveir flokkar sem mynduðu ríkisstjórnina geta ekki haldið því fram að þeir hafi haft umboð kjósenda sinna til að fara af stað í þessa vegferð. Það veikir enn frekar málatilbúnað ríkisstjórnarinnar og um leið þá möguleika sem ríkisstjórnin hefur til að fara í þessa erfiðu og flóknu samninga.

Í þriðja lagi verður það að segjast eins og er að tímasetningin er afskaplega óheppileg svo ekki sé meira sagt. Hér stöndum við í miðjum Icesave-deilunum þar sem Evrópusambandið er einn aðili máls augljóslega og hefur beitt okkur Íslendinga mikilli hörku í samningaviðræðunum. Ég held að það sé ekki óeðlileg krafa að þjóðin fái að segja sína skoðun á því hvort hún vilji við þessar aðstæður sækja um aðild eða hvort hún vilji þá í það minnsta klára þá samninga — ef þeir samningar verða gerðir á annað borð — að það mál verði frágengið áður en menn senda inn umsóknina. Það væri alveg eðlileg krafa. En það er mikill flýtir í málinu og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að það sé vilji Samfylkingarinnar að umsóknin fari út í næstu viku. Gott og vel, það er staðan. Ég tel að þau atriði sem ég hef nefnt hér skýri það mjög vel hvers vegna við sjálfstæðismenn höfum lagt á það áherslu að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort við viljum sækja um.

Síðan snýr alveg sérstök umræða að hinni stjórnskipulegu meðferð mála þegar samningur liggur fyrir. Við það gerum við sjálfstæðismenn miklar athugasemdir. Við teljum að það verði að búa mál þannig að þjóðin eigi síðasta orðið, að þannig sé um hnúta bundið að enginn vafi geti leikið á því að síðasta orðið um það hvort Ísland gerist aðili að ESB eða ekki verði þjóðarinnar. Sú aðferð og sá málatilbúnaður sem glittir í í greinargerðinni frá meiri hluta utanríkismálanefndar bendir til þess að menn ætli sér að fara aðra leið. Þar eru reyndar alveg furðulegar vangaveltur um það sem kallað er móralsskylda þingmanna að fara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og er áhugavert að velta því öllu saman fyrir sér svolítið. Í fyrsta lagi hefur það komið fram í þingsölum að minnsta kosti í einu tilviki þar sem hv. þingmaður hefur verið spurður sérstaklega um þetta mál, hvort að hann hyggist fara eftir slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu gangi hún gegn samvisku hans og sannfæringu. Svar þess þingmanns var afdráttarlaust nei, enda er það svo, hv. þingmenn, að stjórnarskrá lýðveldisins er einu sinni þannig að menn eru bundnir sannfæringu sinni, ekki kjósendum heldur sannfæringu sinni. Og það er alveg furðulegt að sjá það bara á prenti frá meiri hluta utanríkismálanefndar að menn telja að það sé einhvers konar mórölsk binding í því hvernig slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram eða hver niðurstaða hennar yrði. Menn geta líka skoðað hvaða mögulegu aðstæður geta myndast. Hér gæti til dæmis farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla á grunni þeirrar aðferðar sem ríkisstjórnin virðist leggja upp með, þ.e. ekki bindandi heldur ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Segjum sem svo að hún fari mjög tæpt, það sé ekki jafnvel mikil þátttaka, hún rétt uppfylli einhver lágmarksskilyrði og jafnvel að það séu engin lágmarksskilyrði. Segjum að atkvæðagreiðslan fari þannig að 50,1% segi nei og 49,9% segi já. Gefum okkur það nú að þingmeirihlutinn sé þannig saman settur að meiri hluti þingmanna hafi sannfæringu fyrir því samt sem áður, þrátt fyrir þessa naumu niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni, fyrir neiinu, að það sé samt sem áður rétt að segja já við samningnum. Þá getur sú staða komið upp að Alþingi ákveði að Ísland gangi í ESB þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem var jú bara leiðbeinandi hafi sagt annað. Svo getur auðvitað hin niðurstaðan orðið að þjóðaratkvæðagreiðslan segi já og Alþingi segi nei. Einhverjar yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar um að þetta hljóti að verða bindandi niðurstaða fyrir alla stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka eru alveg út í hött eins og hefur komið svo skýrt fram nú þegar í þingsalnum þegar einn stjórnarliða var spurður nákvæmlega þessarar spurningar, enda væri bara slíkt brot á stjórnarskránni. Þetta atriði og þau atriði sem ég hef reifað áður gera það því að verkum að þrátt fyrir að ég telji að það hljóti að koma að því að við Íslendingar sækjum um aðild að ESB þá skiptir máli hvernig það er gert, hvernig það er undirbúið og undirbyggt og sú leið sem ríkisstjórnin hefur verið að fara er óásættanleg.

Þá vil ég víkja máli mínu að ESB og hvað skipti máli fyrir okkur þegar við vegum og metum hvort við viljum ganga inn í þetta samband. Þá er fyrst til að taka það sem margrætt hefur verið í þessum sal, þ.e. spurningin um evruna. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé það einasta sem gæti skipt máli fyrir okkur og verið hagkvæmt fyrir okkur að ná í með því að ganga inn. Það er engin launung á því að íslenska krónan hefur reynst okkur erfið. Það væri heilmikið unnið með því að hafa stöðugri gjaldmiðil eins og til dæmis evruna. En mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir því að það er ekki heldur gallalaus lausn. Sú lausn að taka upp evruna leggur engu minni byrðar á hið opinbera hvað varðar hagstjórn og hvernig hagstjórn er háttað. Við sjáum það bara í mörgum þeirra landa sem nú þegar hafa tekið upp evruna og eru innan ESB að þar geta menn heldur betur runnið til á svellinu og jafnvel dottið niður með miklum dynk. Er nærtækt dæmi Írland þar sem írska hagkerfið á í miklum erfiðleikum núna vegna þess að þróun evrunnar miðað við pund og dollar er írskum útflutningi afar óhagstæð. Það þýðir að útflutningur hefur verið að dragast saman, atvinnuleysi að aukast, að efnahagsörðugleikar írsku þjóðarinnar hafa verið að magnast. Samdrátturinn hefur orðið meiri og meiri og það er mjög erfitt fyrir írsk stjórnvöld að grípa til nokkurra þeirra efnahagsaðgerða sem snúa þessari þróun við af því að vandinn felst í þróun evrunnar sem Írland hefur afskaplega lítil áhrif á. Rétt er að taka það fram úr því að ég nefni hér stöðu Íra að evran gat ekki bjargað írska bankakerfinu vegna þess að til þess að koma í veg fyrir hrun írska bankakerfisins þurfti írska ríkið að ábyrgjast allar skuldir írsku bankanna. Þrátt fyrir það að evran væri lögeyrir írsku þjóðarinnar þurfti slíka aðgerð til til þess að bjarga bankakerfinu. Þannig var staða Íra.

Staða Spánverja er jafnvel verri. Þar er nú um 20% atvinnuleysi. Spánverjar þekkja auðvitað á eigin skinni atvinnuleysi en höfðu náð heilmiklum árangri sem nú virðist vera fokinn út í veður og vind og atvinnuleysið fer stigvaxandi og efnahagsörðugleikar Spánverja gætu orðið umtalsvert miklu verri. Enn á ný er erfitt fyrir Spánverja að bregðast við stöðu mála og gæti jafnvel orðið enn erfiðara þegar fram líða stundir þegar vextir munu hækka í Evrópu sem ég tel algerlega fyrirsjáanlegt í ljósi þess hversu miklu fjármagni hefur verið pumpað inn í hagkerfið af seðlabönkum bæði Evrópu og Bandaríkjanna. Fram undan eru augljóslega vaxtahækkanir sem munu reynast því ríki mjög erfiðar.

Það felast því bæði kostir og gallar í því fyrir Ísland að taka upp evruna. Gallarnir fyrir okkur eru einmitt þeir að þar með fer ákveðinn sveigjanleiki úr kerfinu. Menn geta bara velt því fyrir sér hver staða okkar væri núna hvað það varðar að til dæmis hefur orðið mikið verðfall á mikilvægum afurðum okkar, útflutningsafurðum eins og saltfiski. Verð á saltfiski hefur fallið um tugi prósenta og sama gildir reyndar um aðrar sjávarvörur sem við höfum selt á erlenda markaði að það hefur orðið mikið verðfall á undanförnum mánuðum og missirum. Ef við byggjum við evruna sem hefur verið að styrkjast þá sjá menn í hendi sér hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir þá grein. En á móti kemur — ég viðurkenni það fúslega — að við stöndum frammi fyrir því að íslenska myntin, af þeim orsökum sem ég ræddi áðan, er svo stödd að það þarf gjaldeyrishöft utan um hana og það er ekkert við það búandi. Þess vegna, enn og aftur, hef ég verið tilbúinn til að fallast á að rétt sé að skoða þá leið sem felst í ESB-aðild til að menn geti þá lagt mat á það og tekið þá hana af borðinu ef þeir segja að ekki sé hægt að fara hana vegna þess að hagsmunum Íslands sé bara einfaldlega ekki borgið innan ESB.

Ég vil líka taka það fram varðandi evruna að þegar menn segja, margir hv. þingmenn og aðrir álitsgjafar úti í þjóðfélaginu, að kosturinn við að sækja um aðild sé sá að um leið og við eru komin inn þá grípi Evrópski seðlabankinn utan um okkur, tekur okkur í sinn náðarfaðm og að það muni hjálpa okkur svo hratt að losna við höftin. Þá verða menn að muna að þegar þeir fara í ERM II kerfið þá hafa þeir vissulega aðgang að Evrópska seðlabankanum þannig að þeir geti tekið þá lán. En það eru lán sem þarf að borga til baka. Þannig er að íslenska þjóðin þarf að halda gengi krónunnar innan ákveðinna vikmarka 15% upp og annarra 15% niður á við. Innan þeirra marka þarf að halda krónunni til þess að við byrjum að fullnægja Maastricht-skilyrðunum, fyrir utan auðvitað skuldastöðu og annað slíkt. En það mun kosta mikla peninga. Það getur kostað reyndar alveg gríðarlega fjármuni sem alla þarf að greiða til baka þannig að það eina sem gerist með því að fara inn í ERM II er að við höfum aðgang að lánsfé. Gott og vel, það er kostur en það er ekki það stórkostlega bjargráð sem sumir ímynda sér.

Vil ég þá nefna reynslu Letta sem áttu von á því að geta tekið upp evruna árið 2008. Reynsla þeirra er — hver? Hún er ekki svo ósvipuð okkar. Þeirra staða er sú að það var gríðarleg hækkun á húsnæðisverði. Það var gríðarlegur vöxtur í fjármálastarfsemi. Það varð hrun hjá þeim þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varð að koma þeim til hjálpar. Ríkisstjórnin féll í kjölfar óeirða í janúar síðastliðinn. Vandamál þeirra eru jafnvel umtalsvert verri en okkar af því að við eigum þó miklar auðlindir til að nota til að vinna okkur út úr þeim vanda sem við búum við. En því er ekki til að dreifa í jafnríkum mæli í Lettlandi. Þar eru menn í ERM II. Þar eru menn í forsal evrunnar. Samt sem áður ganga þau áföll yfir sem ég lýsti. Enn og aftur brýni ég hv. þingmenn að vekja ekki hjá íslensku þjóðinni falsvonir um að það sé leikur út úr þeirri stöðu sem við nú erum í að sækja um aðild. Það kann að hjálpa. En vera kann líka að það hjálpi lítið og jafnvel ekki neitt. Menn verða að hafa augun opin í þessu.

Síðan vil ég segja um evruna að það er líka rétt að hafa í huga að við erum að horfa til langs tíma. Ég heyri á ræðum margra hv. þingmanna sem vilja ganga í ESB að þeir gera sér vel grein fyrir því að hér er fyrst og síðast um langtímamál að ræða. Þá þurfum við líka að horfa aðeins til langtímahorfa vaðandi framtíð ESB og hvert það stefnir. Til dæmis er rétt að velta því aðeins fyrir sér hvernig evrunni mun reiða af í þeim hildarleik sem nú stendur yfir og þar er rétt að horfa til þess að langflest ríki ESB eru komin út fyrir Maastricht-skilyrðin. Maastricht-skilyrðin voru sett vegna þess að menn sögðu: Grundvallarforsenda fyrir því að evran gangi upp er að menn geti ekki leikið þann leik að taka ekki ábyrgð á sínum ríkisfjármálum, þ.e. leyfa sér að reka sinn eigin ríkissjóð með miklum halla en njóta stöðugs gengis evrunnar vegna þess að aðrir í myntsamstarfinu sýni aga í sínum ríkisfjármálum. Til þess að koma í veg fyrir þetta voru Maastricht-skilyrðin sett, þ.e. til að tryggja að allir færu eftir þessum reglum til þess að undirbyggja þannig stöðu evrunnar. Allt þetta kerfi er nú undir brot og slit og það skiptir miklu máli hvernig Evrópuþjóðunum tekst að vinna akkúrat úr þessari stöðu. Rétt er því að hafa þetta í huga þegar við veltum fyrir okkur evrunni og mikilvægi hennar fyrir okkur.

Síðan, frú forseti, tel ég rétt að víkja nokkrum orðum að meginhagsmunamálum okkar Íslendinga. Hlýt ég þá að staðnæmast fyrst við sjávarútvegsmálin. Augljóst er að mikil samstaða er um það hér í þingsalnum að þeir mikilvægu hagsmunir sem Ísland á og sú mikla auðlind sem við búum að er þannig þjóðinni mikilvæg að ekki er hægt að sjá fyrir sér að við afsölum okkur forræði yfir auðlindinni til annars ríkis eða ríkjasambands. Þetta er grundvallaratriði. Jafnvel má halda því fram að sú kynslóð Íslendinga sem nú lifir í landinu hafi einfaldlega ekki rétt til þess og leyfi að afsala sér yfirráðunum yfir þessari auðlind fyrir hönd komandi kynslóða. Það er í það minnsta mikið umhugsunarefni.

Enn á ný minni ég á að forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, virðast hafa mjög ólíkar skoðanir á því við hvað hægt sé að búa þegar kemur að regluverki ESB í þessum málum. Hugmyndin er sú virðist vera að ef samningurinn virðist ekki fullnægja þörfum okkar Íslendinga þá sé engin ástæða til að halda samningaviðræðum áfram og menn hætti leik. Enn á ný kemur fram um leið og maður byrjar að skoða það sem snýr að sjávarútvegsmálunum að það er svo augljóst að strax mun reyna akkúrat á þennan ágreining, því miður. Hæstv. fjármálaráðherra lagði reyndar áherslu á það í sinni ræðu hér í gær að menn ættu að byrja á þeim kaflanum vegna þess að ef menn sæju þar fram á að komast hvorki lönd né strönd þá væri þessu öllu saman sjálfhætt.

Enn á ný vil ég vara við því að menn gefi þjóðinni falskar væntingar um að það sé hægt að fá Evrópusambandið til að gjörbreyta sjávarútvegsstefnu sinni eða veita varanlegar undanþágur. Ég tók eftir því í ferð sem ég fór með Evrópunefnd Alþingis hér fyrir nokkrum mánuðum til Brussel til að ræða þar við forráðamenn sambandsins að ítrekað kom þar fram, bæði á opinberum fundum og í persónulegum samtölum að menn gætu beðið um alls konar undanþágur en þeir gætu bara ekki beðið um varanlega undanþágu, það væri lykilatriði.

Síðan hjó ég eftir því í áliti meiri hlutans að þar var það nefnt að í því væri nokkur vörn fyrir Íslendinga hvernig skipað væri málum í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar væru ákveðin réttindi tryggð. Ég held að þetta sé mýrarljós vegna þess að hvað svo sem þeim sáttmála líður þá er það þannig að við erum að sækja um aðgang að ákveðnum klúbbi og við munum ekki ryðjast þangað inn með lagarökum. Við munum ekki koma og segja: Við viljum ganga inn í ESB og hér eru nú ýmis alþjóðleg lög og í krafti þeirra skuluð þið veita okkur þetta og veita okkur hitt. Augljóslega gengur það ekki þannig vegna þess að þá værum við auðvitað ekkert að sækja um aðild að þessum klúbbi og þessi klúbbur mun ekkert veita okkur aðild á slíkum forsendum. Mér finnst þetta vera dæmi um það hversu langt menn telja sig geta teygt sig og vilja teygja sig til þess að leysa það sem mér sýnist nú vera hið óleysanlega. En gott og vel, við munum láta á þetta reyna og það verður svo þjóðin sem tekur sína endanlegu ákvörðun.

Sama gildir reyndar um ákvarðanir um samninga um veiðar úr deili- og flökkustofnum. Slíkar veiðar eru orðnar mjög mikilvægar fyrir okkur Íslendinga og ætli það sé ekki þannig að um það bil einn þriðji af tekjum sjávarútvegsins kemur vegna veiða úr slíkum stofnum. Engum vafa er undirorpið að gerist Ísland aðili að ESB fer samningsforræðið yfir þeim veiðum frá okkur Íslendingum og til ESB. Um það þarf enginn að efast. Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir þessu frá því að þeir fara af stað í þessa vegferð og mun að sjálfsögðu verða eitt af þeim málum sem þjóðin þarf síðan að skera úr um, þ.e. hvort hún sætti sig við þá niðurstöðu sem kemur.

Sama gildir um landbúnaðinn. Forustumenn landbúnaðarins sem mættu á fundi hjá utanríkismálanefnd höfðu miklar áhyggjur af þróun mála og sögðu í raun að þeir gætu vart hugsað sér það að leggja upp nein sérstök samningsmarkmið fyrir ríkisstjórnina í málinu, þeir væru bara á móti því að sótt væri um aðild vegna þess að þeir gátu ekki séð neitt annað en að það mundi reynast landbúnaðinum mjög þungt að ganga inn. Vissulega hafa ríki eins og Finnland og fleiri fengið ákveðnar undanþágur sem byggja á hinum svokallaða heimskautabúskap en meira að segja að því virtu mátti skilja á forustumönnum landbúnaðarins að það mundi reynast Íslendingum erfitt.

Að lokum vil ég nefna eitt sem mér er nokkuð hugleikið hvað varðar Evrópumálin og Evrópuþróunina að það einmitt skiptir máli hvert þetta samband stefnir, þ.e. munum við horfa á samband þar sem samvinnan mun aukast og dýpka eftir því sem fram líða stundir eða mun núverandi ástand verða leiðandi fyrir sambandið næstu áratugina eða mun það draga úr samvinnu sinni og færast kannski meira í áttina að því fyrirkomulagi sem er um Evrópska efnahagssvæðið á grundvelli EES-samningsins? Um þetta er erfitt að spá. En þetta skiptir miklu máli fyrir þjóð sem vill ganga inn í ESB. Erum við að ganga í ríkjabandalag sem stefnir að því að þróast í áttina að því sem við sjáum til dæmis í Bandaríkjunum þar sem alríkið er ráðandi og ríkin raunverulega bara hluti, stjórnsýslueiningar innan þess en ekki sjálfstæð ríki eða erum við að horfa á einhverja aðra þróun sem sennilega væri okkur flestum Íslendingum meira að skapi?

Þá er rétt að horfa til þess að þegar ESB tók upp eina mynt, evruna, þá var þar með stigið mjög stórt skref í áttina að auknu og dýpra samstarfi á milli ríkjanna í efnahagsmálum sérstaklega, í ríkisfjármálum. Mín spá er sú að það muni líka ýta undir aukið samstarf í skattamálum. Allt mun þetta leiða til aukins samruna bæði á breiddina og á dýptina. Þá kemur upp mjög áhugaverð spurning um hvernig mönnum takist að tengja saman aukið vald í Brussel, efnahagslegt, pólitískt vald, við lýðræðið og svo er það aðkoma almennings í löndunum að því valdi. Það er erfitt mál því að til þess að menn geti kosið saman þá þurfa þeir að eiga sameiginleg málefni til þess að það sé einhver merkingarbundin kosning. Það getur reynst erfitt til dæmis fyrir kjósendur í Finnlandi að finna hinn sameiginlega grunn með kjósendum í Grikklandi, Frakklandi, eða hvar sem það er, þannig að þeir skynji sig sem hluta af heild.

Þess vegna hefur Evrópusambandið brugðist við með til dæmis Lissabon-samningnum og var það hugsað í fyrirrennara þess samnings sem var einhvers konar vísir að stjórnarskrá að það skiptir einmitt máli að búa til ýmsar þær stofnanir innan ESB sem leggja grunn að sameiginlegum viðmiðum og að sameiginlegri hugmynd um hvað það sé að vera Evrópubúi. Það væru þá hlutir eins og auðvitað fáninn, þjóðsöngur, sameiginleg utanríkisstefna, sameiginleg mynt, sameiginlegur forseti, sameiginleg ríkisstjórn og svo framvegis. Þetta er ekkert ósvipað því sem við sjáum í Bandaríkjunum. Einmitt á grundvelli þessa hljóta menn að velta fyrir sér hver þróunin verði. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að með því stóra skrefi að evran var tekin upp þá hljóti sambandið að þróast í átt til aukinnar samvinnu bæði á breiddina og dýptina, að það sé það afl sem muni reka sambandið áfram í þá áttina. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við sendum inn umsókn um aðild að ESB.

Að lokum, frú forseti, þar sem tími minn er nú við það að renna út þá vil ég ítreka þakkir mínar til utanríkismálanefndar og nefndarmanna þar fyrir það góða starf sem þar var unnið. Ég ítreka einnig að það mun valda mér miklum vonbrigðum ef þær breytingartillögur sem við sjálfstæðismenn höfum lagt hér fram verða ekki samþykktar af því að ég tel að með því að samþykkja þær — bæði að þjóðin fái að segja skoðun sína á því hvort við eigum að sækja um og að tryggt verði að þjóðin eigi síðasta orðið þegar kemur að því að ákveða hvort ganga eigi í ESB eða ekki — að verði þær samþykktar þá sé hægt að sjá fyrir sér breiða pólitíska samstöðu um þetta mál. Þannig væri hægt að ná þeirri samstöðu. Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa enn þá tækifæri til þess ná þeirri samstöðu, taka tillit til þessara breytingartillagna og fara af stað í þessa vegferð með ríka pólitíska samstöðu að baki sér. Á því yrði mikill munur miðað við það sem því miður er lagt hér upp með.