137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar þá fullyrðingu hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi ekki heyrt aðra Íslendinga tala fastar fyrir evru og kostum hennar en þann sem hér stendur (Utanrrh.: Nema Bjarna.) nema Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, þá verð ég að segja að það skýrir hið hamingjusama líf sem hæstv. ráðherra virðist eiga. Það segir mér að hann sleppur við að hlusta á eigin flokksmenn, það er auðvitað öfundsvert hlutskipti og vildi ég gjarnan eiga orðastað við ráðherrann um hvernig hann fer að þessu. En gott og vel.

Hvað varðar evruna endurtek ég þetta: Það eru augljóslega kostir við upptöku evru og líka gallar. Evra verður ekki tekin hér upp á Íslandi nema við göngum inn í ESB, að ég tel og hef fengið fyrir því sannfæringu. Að ganga í ESB þýðir að við þurfum að öllum líkindum, og ég tel það langlíklegast, að fórna yfirráðum okkar yfir fiskveiðiauðlindinni. Ég tel, og það er þess vegna sem ég var þeirrar skoðunar að það ætti að sækja um, að við þurfum að sjá nákvæmlega hvernig slíkur samningur lítur út þannig að þjóðin að endingu geti fellt sinn dóm. Það er lykilatriði.

Verði niðurstaðan sú að þjóðin segi: Við viljum ekki gefa frá okkur þessi fullu yfirráð, við teljum okkur ekki geta búið við þær tímabundnu undanþágur sem verða veittar þá er það niðurstaðan og menn verða að vera tilbúnir til þess að leita annarra leiða. Þá eru tvær leiðir í boði, alla vega þegar horft er til næstu ára, þ.e. að búa áfram við íslensku krónuna og þá með allt öðruvísi framkvæmd peningamálastefnunnar og samspili hennar við ríkisfjármálin en verið hefur — eða einhvers konar einhliða upptaka á annarri mynt, dollara eða hvað það nú er.

Aðalatriðið er að þetta hef ég og margir aðrir sett fram í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa þróast hér á undanförnum mánuðum og missirum. Það er engin þversögn fólgin í þessari afstöðu þegar menn síðan segja: Sá málatilbúnaður sem ríkisstjórnin hefur um það hvernig á að sækja um aðild að ESB er ófullnægjandi (Forseti hringir.) hvað varðar upphaf málsins og endi þess, rétt þjóðarinnar til að segja sína skoðun, hvort við eigum að fara inn í sambandið og hvernig við eigum að taka á samningnum.