137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tæpti á er mergur málsins. Við sjálfstæðismenn höfum leitað mjög eftir því hér í þinginu að ná þverpólitískri samstöðu um þetta mál. Við höfum nefnilega sagt: Það er ekki sama hvernig þetta er gert.

Ég fór í ræðu minni yfir hvers vegna við flytjum þær breytingartillögur við tillögu ríkisstjórnarmeirihlutans sem við höfum gert, þ.e. að í fyrsta lagi fái þjóðin að segja skoðun sína á málinu, að við tökum þetta upp úr flokkafarveginum, úr þessum erfiðu aðstæðum sem augljóslega hafa myndast á Alþingi, eins og kom fram í umræðunni í gær, færum þetta til þjóðarinnar og segjum: Takið þið ákvörðun óháð flokkum, óháð flokksböndum, um hvort við eigum að sækja um aðild að ESB eða ekki. Síðan þegar samningurinn liggur fyrir segjum við við þjóðina: Það eruð þið sem eigið síðasta orðið, ekki stjórnmálaflokkarnir, ekki stjórnmálamennirnir heldur þjóðin. Þannig er sáttagjörðin sem við bjóðum hér ríkisstjórninni, þær tillögur sem við setjum fram. Ég skora á hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og aðra þingmenn stjórnarliðsins að veita brautargengi breytingunum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt upp með, því bara þannig er hægt að ná fram sátt í samfélaginu um þetta mál. Sátt hér í sölum Alþingis og á meðal þjóðarinnar. Það skiptir máli og enn er tækifæri til þess, allt þar til við komum að þeim punkti að hér verða greidd atkvæði. Eftir það, fari svo að okkar tillögur verði felldar, er augljóst að ríkisstjórnin hefur valið leiðina sem ég vara við, að festa málið í flokkapólitík og ráðast fram með offorsi. Það er ekki heillavænlegt.