137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að hvorki ég né hv. þm. Bjarni Benediktsson höfðum ímyndunarafl til þess að sjá fyrir að hér í landinu yrði ríkisstjórn sem einsetti sér að sækja um aðild að ESB en væri klofin gjörsamlega niður í rót í málinu og að hana mynduðu þeir tveir sem í kosningabaráttunni höfðu lengst hvor frá öðrum um þetta mál. Annar flokkurinn sagði: við verðum að sækja um ESB nú þegar, og hinn flokkurinn sagði: við skulum aldrei sækja um ESB. Þeir flokkar mynduðu síðan ríkisstjórn og þegar fyrir liggur að þessi ríkisstjórn er jafnklofin og fram hefur komið hér í þinginu á síðustu sólarhringum er sérstök ástæða til þess að horfast í augu við og játa að sú staða er uppi. Að menn segi, til þess að ná fram breiðri pólitískri sátt og einmitt til þess að losa okkur upp úr flokkaförunum: Úr því að svona er í pottinn búið, úr því að þessi staða myndaðist í kjölfar þess að þessi ríkisstjórn komst til valda, þá förum við með þetta mál til þjóðarinnar og biðjum um hennar skoðun.

Á sama tíma bætast við þau rök að við erum í Icesave-deilunni miðri og ég held að það væri algjörlega eðlilegt að þjóðin fengi að segja sína skoðun líka á því hvort hún vilji sækja um aðild að þessu bandalagi, m.a. í ljósi þessarar deilu, hvort hún vilji ekki jafnvel að sótt verði um síðar, þegar deilan hefur verið til lykta leidd.

Það hafa því, hv. þingmaður, ýmsir þeir atburðir átt sér stað á þeim mánuðum sem liðið hafa frá því að ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson skrifuðum okkar greinar sem hafa gert það að verkum að við teljum nú lykilatriði til að ná fram sátt í málinu að sú leið verði farin sem birtist í breytingartillögunum sem við höfum lagt fram hér á þingi.