137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög gott yfirlit hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um möguleg áhrif á landbúnað og byggðamál kæmi til þess að Íslendingar samþykktu aðild að ESB. Ég verð að segja eins og er að ég er mjög sammála hv. þingmanninum um marga hluti hvað varðar einmitt mikilvægi þessa málaflokks og fagna því reyndar að heyra að í þeim ranni sem hv. þingmaður kemur úr, þ.e. úr Samfylkingunni, eru í það minnsta uppi raddir, m.a. hv. þingmanns, um mikilvægi þessara mála. Löngum hefur borið á því að okkur hefur þótt skorta nokkuð upp á skilning á einmitt stöðu landbúnaðarins og mikilvægi hans, sérstaklega í byggðaþróuninni, frá þeim annars ágæta stjórnmálaflokki. Þess vegna er þetta ánægjuefni.

Ég tel þó reyndar, þar sem hv. þingmaður talaði ítrekað um stöðu byggðanna, að aldrei verði hægt að ræða þetta mál nema einmitt í samhengi við sjávarútveginn og mögulega stöðu hans innan ESB vegna þess að hann er jú lykilbreytan í þessu, hryggjarstykkið í byggðum landsins, þorpin, sjávarþorpin, kauptúnin og kaupstaðirnir, allt er þetta auðvitað hið mikilvægasta og svo samblandið og samþættingin við landbúnaðinn.

Ég vil byrja á því að spyrja hv. þingmann: Ef hann sér á upphafsstigum samningsins eða þegar menn hafa fjallað um landbúnaðarþáttinn að ekki sé að myndast sú staða eða sá samningur sem hann telur boðlegan fyrir íslenskan landbúnað, mun hann þá beita sér innan síns flokks og við sína ráðherra til þess að ekki verði þá lengra haldið í samningsgerðinni og samningurinn (Forseti hringir.) komi þá ekki til þjóðarinnar heldur verði látið staðar numið?