137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrir það fyrsta taka undir það sem þingmaðurinn sagði, þessum málum hefur almennt verið gefinn allt of lítill gaumur í íslenskri stjórnmálaumræðu á liðnum árum. Mjög sjaldan á þeim tíma sem ég hef starfað hérna hafa verið einhverjar yfirgripsmiklar umræður um byggðamál almennt eða landbúnaðarmál. Þess vegna finnst mér það sem miklum stuðningsmanni landbúnaðar og dreifbýlis á Íslandi kærkomið tækifæri að ræða þau mál af því að byggða- og landbúnaðarmál snerta svo sannarlega mögulega aðild að Evrópusambandinu. Menn hafa yfirleitt fjallað um þau út frá því að raskið fyrir landbúnaðinn og greinina verði svo mikið að það verði aldrei ásættanlegt fyrir landbúnaðinn. Ég er persónulega algjörlega á öndverðri skoðun, ég held að í þessu felist svo mikil sóknarfæri fyrir byggðirnar.

Þingmaðurinn spurði hvort ég mundi beita mér fyrir því að samningsviðræðum yrði þá hætt. Ég held að vinnan verði þannig að við munum fylgjast með og ef við teljum ekki fullnægjandi stöðu í einhverjum málaflokki munum við beita afli okkar til að fá menn til að taka betur á þar og sjá hvort við náum ekki árangri í því. Ég átta mig ekki alveg á því nákvæmlega hvernig ferlið fer fram. Ég mundi aldrei styðja aðild að Evrópusambandinu ef ekki hefði tekist að ná viðunandi og góðum árangri fyrir landbúnaðinn og byggðirnar (Gripið fram í.) þannig að ég held að svar mitt felist í rauninni í því. Ég mundi aldrei veita slíkum samningi stuðning minn ef við hefðum ekki náð að tryggja hagsmuni byggðanna og landbúnaðarins með fullnægjandi hætti, og viðvarandi að mínu eigin áliti. Ég held að það sé alveg afdráttarlaust svar hvað það varðar.