137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég spurði hv. þingmann þessarar spurningar var ummæli hæstv. fjármálaráðherra hér í gær þar sem hann lýsti því yfir að nauðsynlegt væri að byrja einmitt á landbúnaðarmálunum og sjávarútvegsmálunum því að ef það sýndi sig að það stefndi í að ekki væri hægt að ná ásættanlegum samningi væri engin ástæða til að halda áfram og menn mundu ekki bera samninginn til þjóðarinnar.

Ástæðan fyrir því að ég hnykki á þessu er akkúrat sá vandi sem upp er kominn í ríkisstjórninni, hún er klofin í málinu. Annar flokkurinn vill alls ekki ganga í ESB og hefur haft það á stefnuskrá sinni alla tíð að það sé gjörsamlega ósamrýmanlegt íslenskum hagsmunum að ganga inn. Hinum megin er ríkisstjórnarflokkur sem hefur lagt alla áherslu á að ganga inn í ESB. Þess vegna mun óhjákvæmilega myndast sú staða þá þegar samningaferlið verður komið af stað að annar flokkurinn — rétt eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í gær — mun þá mjög auðveldlega komast að þeirri niðurstöðu að ekki verði lengra haldið, ekki sé hægt að semja lengur vegna þess að það sé augljóst að ekki sé hægt að fullnægja þeim kröfum sem sá flokkur gerir um íslenska hagsmuni. Þær kröfur liggja allar fyrir í stefnu Vinstri grænna, það er alveg augljóst mál. Og það er alveg augljóst mál að stefna þess flokks er sú að það eigi alls ekkert að ganga inn í ESB vegna þess að þær kröfur sem sambandið gerir eru einfaldlega óásættanlegar fyrir Ísland. Hinum megin er síðan Samfylkingin.

Þess vegna, hv. þingmaður, höfum við sjálfstæðismenn sagt: Þessi málatilbúnaður, þessi staða, þessi klofningur inni í ríkisstjórninni gerir það að verkum að menn geta ekki farið af stað með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar sér. Þess vegna gerum við þær breytingartillögur sem við höfum gert varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi máls og síðan það að tryggja að þjóðin fái sagt síðasta orðið.

Vill nú hv. þingmaður ekki lýsa því bara hér yfir að í nafni einmitt þess að það sé nauðsynlegt að búa til breiðari sátt, (Forseti hringir.) ná málinu upp úr hjólförum stjórnmálaflokkanna, muni hann styðja tillögur okkar sjálfstæðismanna hér við atkvæðagreiðsluna?