137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:58]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég mun ekki styðja þær breytingartillögur. Þingmaðurinn hefur gert talsvert úr því að flokkarnir hafi hvor sína afstöðuna til aðildar en við getum tekið mýmörg dæmi, t.d. þegar Norðmenn sóttu um, þá var norski verkamannaflokkurinn sem þá var við völd í Noregi klofinn í málinu, ef svo má segja, ungliðahreyfingin fór hamförum á móti aðild meðan flestir hinna voru með. Hinu sama hefði verið til að dreifa ef sótt hefði verið um fyrr á þessu ári. Þingmaðurinn lagði það sjálfur til í janúar að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu burt séð frá afstöðu ríkisstjórnarflokkanna, burt séð frá því hvaða afstöðu landsfundur sjálfstæðismanna, sem átti að halda í janúar, hefði tekið, það yrði samt sótt strax um aðild til að ná málinu upp úr flokkahjólförunum og síðan yrði farið með samninginn fyrir þjóðaratkvæði. Þetta er nákvæmlega í rauninni sú sama skoðun og ég hef, burt séð frá því hvaða afstöðu einstakir þingmenn og ráðherrar hafa til málsins af því að þetta mál mun alltaf, kannski sem betur fer og eðlilega, verða þverpólitískt.

Við þekkjum öll fólk úr öllum flokkum sem er bæði með og á móti þessu máli, fullt af sjálfstæðismönnum styður það mjög einbeitt að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Við þurfum ekki einu sinni að telja upp nöfnin hér, fyrrverandi þingmenn og þekktir og öflugir forustumenn í Sjálfstæðisflokki eru einbeittustu talsmenn þess að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu strax í dag. Þetta vita sjálfstæðismenn sjálfir þannig að málið er fyrir löngu komið upp úr hjólförum flokkanna og það er miklu breiðari samstaða úti í þjóðfélaginu á bak við aðildarumsókn en speglast nákvæmlega í afstöðu þingflokkanna. Það er miklu þrengri prófíll á málið. Sjálfstæðisflokkurinn á þingi endurspeglar ekki (Forseti hringir.) vilja sjálfstæðismanna úti í samfélaginu til þessara mála.