137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að fjalla um þetta mál á laugardegi sem er afskaplega óvenjulegt og það er vegna þess að það liggur svo mikið á að koma málinu fram. Ég vildi beina athyglinni að því að við gerum þetta vegna þeirra vandræða sem reglur Evrópusambandsins hafa komið okkur í og ofbeldisins sem það beitti okkur í haust, þetta sama bandalag, í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til aðstoðar Bretum og Hollendingum með gjaldeyrishöftum á Ísland sem hv. þingmanni er kunnugt um, í skugga þessara atburða þar sem hv. þingmaður stóð vörð og vaktina og gafst upp fyrir fram.

Í skugga þess ætlar hann að sækja um aðild að þessum sama klúbbi. Hvernig gengur það upp? Hvernig gengur það upp þegar hæstv. utanríkisráðherra fer þar fyrir? Flestir eða allir vita hvaða afstöðu hann hefur til Evrópusambandsins, hann ætlar að fara inn — og Samfylkingin ætlar að fara inn, þetta eru trúarbrögð. Það er ekkert rætt um kosti og galla, það er bara rætt um kosti. Í skugga þessa sækja menn um aðild að þessum klúbbi á hnjánum eftir að hafa orðið fyrir þvílíku áfalli, að hluta til vegna aðgerða og galla í regluverki Evrópusambandsins. Þá ætla menn að sækja um og svo er því lofað að breyta eigi íslenskum landbúnaði í styrkþega, skilgreina íslenskan landbúnað sem harðbýlt svæði o.s.frv., gera íslenska bændur að bótaþegum frá Evrópusambandinu.