137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum þá tvö sem ekki viljum ganga í Evrópusambandið og það er ágæt byrjun. Þeir verða eflaust fleiri Íslendingar. En það sem hv. þingmaður kom ekki inn á — ég fellst alveg á þetta með kostnaðinn og orkuna aðallega, þ.e. þann mannauð sem við setjum í þessar viðræður á þessum tíma þegar svo mikið liggur við að koma bönkunum og atvinnulífinu og þar með heimilunum í gang, að þá séu menn að gæla við svona verkefni því alveg eins má sækja um eftir fimm ár eða þrjú ár eða hvenær sem er. Núna eru menn að setja ráðuneytin og allt saman á fullt við að sækja um. Það er þetta sem ég óttast kannski mest og tek undir það með hv. þingmanni.

Hún svaraði ekki einni spurningunni. Hún hefur kannski gleymt því. En það var um það sem við getum gefið. Það er ekki bara ósnortin náttúra því að ef miklu fleiri túristar koma til Íslands þá er hún ekki lengur ósnortin og hún er nú eiginlega hætt að vera það, því miður. Hún líður mjög mikið fyrir túrismann. Það bara er þannig. Ég held að túrisminn mengi hvað mest af öllum atvinnugreinum. Af honum er bæði sjónmengun og svo ekki síður bara hreinlega mengun, vegir, götur og fólk. En það sem ég held að Evrópusambandið sjái við Ísland sé orkan til framtíðar, raforkan og varmaorkan og síðan matur, fiskurinn sem við höfum hérna og er síminnkandi í Evrópu vegna stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum. Þeir hafa stundað rányrkju varðandi fiskinn en við ekki. Og svo er það alveg sérstaklega vatnið sem þeir munu örugglega sækja í svo ég nefni nú ekki mannauðinn sem er að ég held mjög góður á Íslandi miðað við víða annars staðar.