137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er já. Mér er fullkomin alvara með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég hef árum saman verið þeirrar skoðunar. Reyndar nýt ég þess heiðurs, sem ég er viss um að hv. þingmaður telur vafasaman, að vera sá þingmaður sem nú á sæti á Alþingi sem lengst hefur barist fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að vera kann svo að kostnaðurinn við umsóknina verði meiri en kemur fram. Eins og ég sagði að minnsta kosti í viðtalinu — ég veit ekki hvort það var birt vegna þess að ég hlusta ekki á sjálfan mig, ég hef enga sérstaka ánægju af því — í útvarpinu áðan þá sagði ég að ef viðræðurnar drægjust væri líklegt að kostnaðurinn yrði meiri. Ég gat þess jafnframt að í nokkuð umræddri kynnisför minni til Möltu var okkur bent á ákveðnar leiðir sem gera það hugsanlegt að við getum fengið þátttöku Evrópusambandsins í að mæta kostnaði við þýðingarnar. Það er langþyngsti pósturinn svo það eru rök sem hníga að því að hugsanlega, við vissar aðstæður, væri hægt að hafa þennan kostnað minni. Hann mundi örugglega verða minni ef hv. þingmaður mundi slást í för (Forseti hringir.) og hjálpa mér við að skapa breiða samstöðu um þetta mál.