137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekkert efast um afstöðu og einlægan vilja hæstv. utanríkisráðherra til þess að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Ég hins vegar velti því fyrir mér hvort allir þeir þingmenn sem styðja tillögu hæstv. utanríkisráðherra séu jafneinlægir í sinni afstöðu. Ég hef heyrt hér ráðherra og þingmenn tala eins og þeir ætli að styðja þessa tillögu en lýsa sig jafnframt andvíga því að við náum endapunktinum. Það finnst mér sérkennilegt að vilja leggja af stað í leiðangur án þess að hafa áhuga á því að ná áfangastaðnum. Mér finnst það sérkennilegt. Þess vegna áréttaði ég það sem ég sagði að það er mikilvægt að fullur hugur sé á bak við aðildarumsókn ef menn á annað borð taka ákvörðun um að sækja um.