137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þarf að vera sem mestur þungi á bak við slíka umsókn. Þess vegna tel ég nú að Sjálfstæðisflokkurinn ætti þrátt fyrir allt að slást í för jafnvel þó að hann sé þeirrar skoðunar að það eigi að fara aðra leið en við. Þeir þingmenn sjálfstæðismanna sem hér hafa talað hafa ekki komið fram með efnisleg rök sem mæla gegn því að við förum í þennan leiðangur.

Hv. þingmaður, sem hélt hér snjalla ræðu áðan, var fyrst og fremst að gera athugasemdir við form, þ.e. hvernig þessi för ætti að verða. Hann gerði athugasemdir við þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis hvenær stjórnarskrárbreytingar ættu að verða. Ég held að þegar við höfum gengið úr skugga um hvort þingmeirihluti sé fyrir tvöfaldri atkvæðagreiðslu eða ekki, og þegar þau úrslit liggja fyrir, og ef það verður svo að það nýtur ekki brautargengis hér þá held ég að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að skoða hvort það væri ekki í þágu þjóðarinnar sem heildar að reyna að koma með í þennan leiðangur og hafa áhrif á hann. Til er sá utanríkisráðherra sem hér stendur.