137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get útskýrt þetta fyrir hv. þingmanni en ég veit ekki hvort hún verður sammála mér. Við sjálfstæðismenn leggjum þetta upp í tillögu okkar sem tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um tvær mismunandi ákvarðanir: Annars vegar er ákvörðun að fara í aðildarviðræður og við leggjum upp með að það verði gert með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar er ákvörðunin um að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það segjum við að verði að gerast með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, enda er það miklu stærri ákvörðun heldur en hin. Þar er um að ræða formlegt framsal fullveldis. Aðild að ríkjasambandi sem hefur allt aðrar afleiðingar heldur en sú fyrri. Ég held að þetta hljóti að vera fullnægjandi rökstuðningur af minni hálfu þó að hv. þingmaður Valgerður Bjarnadóttir kunni að vera mér ósammála í þessu efni.