137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og aðrir sem hér hafa talað er ég nokkuð hugsi yfir röksemdafærslu og málflutningi sjálfstæðismanna í þessu stóra máli. Ég hygg að einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal, hafi talað sig til hita í andstöðu sinni við inngöngu í Evrópusambandið á þessum síðasta sólarhring. Aðrir eru í forminu og þar er líka hv. þm. Birgir Ármannsson.

Ég hef aldrei á mínum 10 ára þingferli heyrt nokkurn sjálfstæðismann tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef eitthvað er hafa sjálfstæðismenn talað gegn þeim, alltaf þegar hingað hafa komið inn tillögur um slíkt. Nú er sagt að málið sé svo stórt að það verði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákveða hvort sækja eigi um og mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað hefur breyst? Hvers vegna hefur grundvallarafstaða Sjálfstæðisflokksins breyst til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu?