137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara hnútukasti frá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur sem áreiðanlega voru sögð í miklum tilfinningahita vegna þess að ég hef trúlega komið við kaunin á Samfylkingunni þegar ég talaði um að undarlega horfði við mér að sá flokkur sem hefur hvað mest talað um þjóðaratkvæðagreiðslur á undanförnum árum, miklu meira heldur en ég og Sjálfstæðisflokkurinn það er alveg rétt, skuli ekki styðja tillögu okkar um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég verð hins vegar að verja mig, ef svo má segja, með þeim orðum að hæstv. utanríkisráðherra, og hv. þingmaður má kalla það útúrsnúning eða bull eða hvaða orð sem hún velur í því sambandi, hélt langar og lærðar ræður um það í vetur (Utanrrh.: Og góðar.) og góðar, prýðilegar ræður. Skrifaði um það greinar, fleiri en eina og fleiri en tvær, í blöðin að sjálfstæðismenn væru einhvers konar frumkvöðlar í þjóðaratkvæðagreiðslumálinu. Jú, hæstv. utanríkisráðherra sagði það, við getum fundið það til, hæstv. forseti, þessar tilvitnanir …

(Forseti (RR): Hljóð í salnum.)

… því hæstv. utanríkisráðherra sparaði ekki stóru orðin í þeirri umræðu og væri nær fyrir hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að hlusta á leiðtoga sinn í þessu máli.