137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræddi um að skoðanir væru skiptar og jafnvel klofningur innan ríkisstjórnarinnar um málið sem hér er til umfjöllunar. Alla tíð hefur legið fyrir með hvaða hætti flokkarnir sem mynda núverandi ríkisstjórn hugsa sér að leiða þetta mál til lykta og kemur það ágætlega fram í samstarfsyfirlýsingu þeirra. En auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta mál í öllum flokkum, þar á meðal í flokki hv. þm. Birgis Ármannssonar. Meira að segja eru þar skiptar skoðanir um þessa leið tvöfaldrar atkvæðagreiðslu, eins og má t.d. marka á því sem fyrrverandi formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, skrifar í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir að engin rök standi til þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn. Mig langar að heyra viðhorf hv. þm. Birgis Ármannssonar til þessa og hvort hann sé ekki sammála mér um að skoðanir séu líka skiptar um þessa leið í hans eigin flokki þannig að það þurfi ekki að koma honum neitt á óvart að skiptar skoðanir kunni sömuleiðis að vera um nákvæmlega þetta atriði í öðrum flokkum. Eða er það kannski þannig að Sjálfstæðisflokkurinn einn hafi sérstakan rétt á því að skoðanir séu skiptar eða ólík sjónarmið í einstökum atriðum?