137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var einnig annað atriði sem kom fram í máli hv. þingmanns Hann talaði um sannfæringuna, hvernig menn gætu haft sannfæringu fyrir því að fara ekki inn í Evrópusambandið en stutt viðræður og sagðist ekki skilja það með öllu. Ég get sagt fyrir mína parta, og hef lýst í umræðunum, hver mín afstaða er til aðildar að Evrópusambandinu.

Ég hef sannfærst um það á undanförnum missirum, eftir því sem umræðan í samfélaginu um Evrópusambandsmálið hefur orðið meiri, að skynsamlegt sé að koma málinu í lýðræðislegan farveg og ráða því til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli haldbærra upplýsinga um hvað felst raunverulega í aðild. Ég tel mig vita býsna mikið um Evrópusambandið og hvað því fylgir en ég tel jafnframt mikilvægt lýðræðisins vegna að allir fletir þess séu reiddir fram og þjóðin hafi eitthvað í höndum til að kjósa um, sem sagt aðildarsamning, niðurstöður aðildarviðræðna. Svo taka menn auðvitað afstöðu til þeirra þegar þangað er komið og á það ekki líka við í Sjálfstæðisflokknum? Þar eru margir sem vilja aðild að Evrópusambandinu. Munu þeir ekki styðja það jafnvel þó að breytingartillaga þeirra nái hugsanlega ekki brautargengi í þingsal?