137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað eru allir sammála um að ef farið verður í aðild að Evrópusambandinu verður það gert á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu. Við höfum deilt um hvort rétt væri að hafa hana ráðgefandi eða bindandi og um ýmsa þætti í þessu sambandi sem skipta verulegu máli. Þess vegna held ég að ýmsir sem gætu hugsað sér að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið — ég get ekki talað fyrir alla, ég hef ekki spurt alla í mínum flokki um þetta, enda geri ég ráð fyrir að allir muni kjósa eftir sinni sannfæringu í öllum flokkum. Þess vegna get ég ekki svarað spurningu hv. þingmanns: „Hvað ef?“ … sem er vinsælt að nota hér í dag.

En það sem ég velti fyrir mér og velti upp hér, er að þeir sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki æskilegt að fara í Evrópusambandið — ég undrast nokkuð að þeir skuli leggja upp með aðildarumsókn sem þeir hafa ekki sannfæringu fyrir að muni leiða til góðrar niðurstöðu.