137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppbygging á Þingvöllum.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að sá atburður sem þarna varð er mikið áfall fyrir þjóðina. Valhöll er auðvitað mikilvægur hluti af þessum sögufræga stað og það var hrikaleg sjón að sjá Valhöll brenna þarna. Eins og hv. þingmaður nefnir þarf auðvitað að huga að framhaldinu og uppbyggingunni en ég held að við hljótum, og eigum, að taka okkur tíma til að velta fyrir okkur hvað eigi að koma í staðinn á Valhallarreitnum.

Ég hef þegar heyrt ýmsar hugmyndir frá fólki og tel alveg sjálfsagt, eins og hv. þingmaður nefnir, að skoða þetta í samráði við heimamenn líka og að þjóðin öll fái jafnvel að segja sitt álit á því hvernig hún vill sjá uppbygginguna á þessum stað. Ég held að við eigum að taka okkur góðan tíma í þetta. Það er alveg ljóst að við erum ekki með neitt fjármagn til staðar til að fara strax í uppbyggingu enda finnst mér ekki liggja neitt á því, það á fyrst og fremst að ganga vel frá þessum stað þar sem Valhöll stóð en síðan eigum við að huga að uppbyggingunni.

Eins og ég hef áður sagt held ég ekki að það sé sjálfgefið að við förum í sams konar uppbyggingu að því er varðar hótelrekstur eins og þarna hefur verið lengi, og held reyndar síður að það væri rétt. Ég held að fyrst og síðast eigum við að taka okkur góðan tíma í að skoða uppbygginguna á þessum stað eða þá öðrum ef menn vilja fara út í eitthvað svipað og verið hefur á Valhallarreitnum. Ég held að þennan reit eigum við að skoða alveg sérstaklega, hvernig við byggjum upp, og skoða í samráði við almenning og heimamenn. Síðan kemur Þingvallanefnd að þessu máli og ég tel að hún eigi að koma fljótt saman. Það á væntanlega að kjósa hana í þessari viku eða fljótlega og (Forseti hringir.) fara yfir stöðuna eftir þennan hrikalega bruna.